Fótbolti - 1 deild: Fyrsti sigurinn staðreynd

09.jún.2007  09:17
Eyjapeyjar gerðu frábæra ferð í "ghettóið" í gær og sigruðu þar heimamenn í Leikni 0-2. Ég hafði spáð 1-2 og var því nokkuð nálægt því. Hinn gallharði stuðningsmaður ÍBV, Gestur Magnússon, var á leiknum og skrifaði umfjöllun um hann sem birtist hér að neðan. Gestur hefur tekið að sér að sjá um að skrifa um útileiki liðsins í sumar, svo áhangendur liðsins sem ekki komast á leikina, geti fylgst betur með liðinu. Vil ég þakka Gesti kærlega fyrir hans framlag á ÍBV-síðuna. Ég eyddi u.þ.b. hálfum deginum í gær að finna mann sem gæti tekið myndir á leiknum en mér varð ekki kápan úr því klæðinu. Annaðhvort náðist ekki í menn, þeir fundu ekki vélarnar sínar eins og raunin var með prestinn okkar Óla Jóa og Jóhann Sveinn átti t.d. ekki myndavél sem telst fáheyrt á upplýsinga og tækniöld! En Jóhann Sveinn sagðist í samtali við síðuna að hann væri ekki mjög tæknivæddur og væri bara stoltur af því. Ef einhver snillingur sem telur sig mæta á flesta/alla útileiki liðsins væri til í að sjá um að smella nokkrum myndum á hverjum leik, má hinn sami endilega senda mér tölvupóst á paradisareyjan@gmail.com. Hér kemur svo pistill Gests.

Fyrsti sigurinn í sumar kom á útivelli
Lið ÍBV: Hrafn í marki. Arnór hægri bak, Bjarni Hólm og Palli miðverðir, Þórarinn Ingi (Guðjón) vinstri bak. Andrew, Jonah og Yngvi á miðjunni. Ingi Rafn (Egill) á vinstri kanti, Bjarni Rúnar á hægri kanti, Atli (Stefán Björn) frammi.

Fyrir leik rigndi nokkuð mikið en leikmenn ÍBV voru staðráðnir að láta hvorki veðrið né þrjú jafntefli í jafn mörgum leikjum hafa áhrif á sig. Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og Bjarni Rúnar skoraði eftir aðeins tvær mínútur. Eftir góða sókn upp hægri kantinn virtist eins og Bjarni ætlaði að senda boltann fyrir en þess í stað lét hann vaða með vinstri á nær stöngina og boltinn lá í netinu, óvænt en glæsilegt skot. Eftir markið vöknuðu Leiknismenn til lífsins og fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu, stundum of mikilli á kostnað fótboltans. Á 30 mín. sló sóknarmaður Leiknis Þórarinn Inga, þegar boltinn var ekki nærri, en línuvörður sem sá atvikið hafði ekki þor í sér að benda dómara leiksins á atvikið. Þetta sýndi kannski best að Leiknismenn ætluðu að drepa niður fótboltann, með hörku. Staðan 0-1 í hálfleik sem var sanngjörn staða, þar sem hvort lið átti tvö til þrjú hálffæri í fyrri hálfleiknum. Okkar menn bökkuðu stundum fullmikið og gáfu Leiknis mönnum of mikinn frið til að byggja upp spil.

Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri. Liðin skiptust á að sækja og fyrsta færið í seinni hálfleik kom á 60 mín. þegar Palli gerði sig sekan um skelfileg mistök, sóknarmaður Leiknis hirti boltann af honum og lék upp að markinu en Hrafn gerði vel þegar hann varði í horn með fætinum. Á 72 mín. áttu Leiknis menn gott færi þegar skalli af stuttu færi, fór rétt framhjá. Þremur mínútum seinna átti nýliðinn Atli góða rispu í gegnum vörn Leiknis og var felldur og víti dæmd sem Bjarni Hólm skoraði örugglega úr. Eftir markið opnaðist leikurinn og varð mun skemmtilegra á að horfa. Á 80 mín. var Atli við það að sleppa í gegnum vörnina en næstaftasti varnarmaðurinn togaði hann niður og fékk gult spjald og aukaspyrna dæmd sem nýttist illa. Heimir leyfði Agli, Stefáni og Guðjóni að spreyta sig síðustu 10-15 mín. og stóðu þeir sig ágætlega eins og liðið í heildina.

Lokastaðan 0-2 og var það verðskuldaður sigur. Úr annars jöfnu liði var Hrafn að bjarga vel en má laga hjá sér útspörkin, Vörnin var fín og þar munar mikið um reynslu Bjarna Hólm og Palla. Miðjan var góð, Bjarni Rúnar og Ingi Rafn voru frískir á vængjunum en komu stundum full mikið til baka eins og liðið allt, sem var líklega dagskipun frá þjálfaranum. Nýliðinn Atli átti fínan leik, þar er á ferðinni duglegur leikmaður sem gefur sig allann í leikinn. Með þessum sigri er Eyjaliðið búið að gefa tóninn fyrir það sem koma skal í næst leikjum.

Dómari leiksins: Einar Örn Daníelsson - einkunn 5. Hefur líklega átti betri leiki.