Fótbolti - 1 deild: Eyjamenn heimsækja Leikni á morgun
07.jún.2007 08:27
Þá eru bjartari tímar framundan hjá meistaraflokki karla. Eftir brösótta byrjun, einungis þrjú stig út úr þremur leikjum og þrífrestun á leiknum gegn Stjörnunni styttist nú í stórleik Leiknis og Eyjamanna í Reykjavík sem verður flautaður á klukkan 19 á morgun, föstudag í Breiðholtinu. Þar sem svolítið mikið af tölunni þrír hefur birst í þessum pistli það sem af er, þá eru nokkuð góðar líkur á að þrjú mörk verði skoruð í leiknum. Tvö verða okkar manna en Leiknismenn ná að pota inn einu.
Leiknismenn hafa innan sinna raða marga góða spilara og ber helst að nefna leikmann númer 10, Jakob Spangsberg Jensen og númer 11, Tómas Michael Reynisson fyrrverandi leikmann ÍBV. Þessa tvo leikmenn verða Eyjamenn sérstaklega að varast.
Eyjamenn hafa ekki byrjað nógu vel og gert þrjú jafntefli í fyrstu þremur leikjunum. 1-1 gegn Þór á heimavelli, 1-1 gegn Reyni Sandgerði á heimavelli og svo 0-0 gegn Fjarðabyggð á útivelli, sem þó verða að teljast ágæt úrslit enda Fjarðabyggð með geysisterkt lið og ekki tapað heimaleik í tvö ár.
Leiknismenn hafa líka farið illa af stað í deildinni, gerðu jafntefli í fyrsta leik á heimavelli gegn Njarðvík 2-2 með mörkum frá Jakobi Spangsberg Jensen og Halldóri Kristni Halldórssyni. Töpuðu næst á útivelli fyrir Grindavík 2-0 og í síðustu umferð töpuðu þeir fyrir Þrótti Reykjavík á heimavelli 1-2 þar sem Helgi Pétur Jóhannsson skoraði mark Leiknis. Því er ljóst að Leiknismenn munu koma dýrvitlausir í leikinn á föstudaginn. Þeir hafa að skipa nýjum þjálfara Óla Halldóri Sigurjónssyni. Óli er ungur þjálfari sem tók við meistaraflokki af Garðari Gunnari Ásgeirssyni sem lét af störfum eftir sumarið 2006. Óli hefur verið viðriðinn Leikni síðustu ár og þjálfaði m.a. 2. og 3. flokk félagsins 2006. Árið 2004 var hann aðstoðarmaður Garðars með meistaraflokkinn en árið þar á eftir var hann þjálfari Neista á Djúpavogi í 3. deildinni. Sem leikmaður var Óli varnarmaður, hóf ferilinn hjá ÍR en lék einnig í búningum Léttis og Leiknis.
Ég truflaði Óla þar sem hann var á fullu að gefa einkunnir til nemenda sinna en hann starfar sem kennari. Hann sagði í stuttu spjalli við ÍBV síðuna að þrjú stig og ekkert annað kæmi til greina gegn Eyjamönnum á föstudaginn og átti hann von á hörkuleik. ,,Mér líst bara mjög vel á leikinn, ég á von á ferskum Eyjamönnum í heimsókn og góðum og skemmtilegum leik. Ég vona bara að það rætist eitthvað úr veðrinu, búið að vera ansi hvasst undanfarið."
Hann sagðist ekki vera fyllilega sáttur með byrjun sinna manna og sagði bestu lausnina til að snúa genginu við væri að halda hreinu gegn ÍBV. ,,Það er að halda hreinu, það er ósköp einfalt. Við höfum fengið sex mörk á okkur í þremur leikjum og það er bara allt of mikið. Ég átti nú einnig von á fleiri stigum í hús hjá ÍBV í fyrstu leikjunum en liðið er nú enn taplaust eftir þrjá leiki og það getur varla talist svo slæmt."
,,Ég fylgdist með ÍBV-liðinu gera jafntefli við Fjölni í bragðdaufum leik í deildarbikarnum. Þá voru menn í lyftingapakkanum, þannig að leikurinn var lítið marktækur sem slíkur fyrir leikinn á föstudaginn. Við komum til með að fylgjast vel með Atla Heimis, enda góður leikmaður þar á ferð."
Aðspurður um hvaða lið hann hélt að myndu fara upp í úrvalsdeild eða falla sagði hann að tölfræðin kæmi þar sterk inn. ,,Tölfræðin segir að liðin sem að falla fari mjög oft strax upp aftur þannig að ég segi að liðin sem fari upp verði ÍBV, Grindavík og síðan spái ég að Þróttarar taki lokasætið. Markmið okkar Leiknismanna í sumar er að spila góðan og skemmtilegan fótbolta og fá fullt af stigum. Við sjáum svo hvert það fleytir okkur. Mér er svo sem nokk sama hvaða lið falla bara á meðan við verðum ekki þar að meðal,
Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV líst einnig ágætlega á leikinn framundan gegn Leikni. Allir leikmenn séu heilir nema auðvitað Matt Garner sem því miður spilar væntanlega ekkert í sumar. ,,Leiknismennirnir hafa gott lið, við vitum það. Þeir eru búnir að vera óheppnir í leikjunum á móti Þrótti og Njarðvík, hafa verið betri aðilinn en ekki náð að nýta sér það til sigurs."
Heimir segir svekkjandi að hafa ekki náð að nýta þessa fyrstu tvo heimaleiki betur en raunin varð. ,,Tvö jafntefli á heimavelli í fyrstu tveimur leikjunum var ekki nógu gott og við erum ekki sáttir við það. Sér í lagi vegna þess að við fengum mörk tækifæri til að klára þessa leiki þrátt fyrir að vera ekki að leika eins vel og við getum. Ég var hins vegar sáttur við jafnteflið í Fjarðabyggð. Þeir verða klárlega með eitt af bestu liðum fyrstu deildarinnar og það eiga ekki mörg lið eftir að sækja stig þangað."
,,Varðandi Leiknismennina þá hef ég ekki séð þá spila en hef fengið menn í það fyrir mig.
Þeir eru með kraftmikla og góða framherja og yfirhöfuð vel spilandi lið. Við verðum að eiga toppleik til að ná stigum úr Breiðholtinu."
Heimir segir markmiðin hafa verið skýr fyrir mótið, komast upp í úrvalsdeild og ekkert annað komi til greina. Alltof fljótt sé að spá fyrir um hverjir fari upp eða falli enda verði þetta mjög jöfn deild. "Þau lið sem eru efst í dag eru kannski líklegust en stigataflan á eftir að breytast mikið í sumar, enda langt mót framundan."
Eins og flestir vita gekk nýlega til liðs við ÍBV nýr leikmaður, sóknarmaðurinn Atli Heimisson úr Aftureldingu. Heimir segir þennan strák kærkomna viðbót við hópinn. ,,Já heldur betur. Hann er mjög kraftmikill og það er mikill hugur í honum. Hann er klárlega leikmaður framtíðarinnar en svo verður að koma í ljós hvort hann er leikmaður nútíðarinnar. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að okkur vantaði tvo leikmenn framarlega á vellinum sem eru klárlega betri en þeir sem fyrir eru. Svo er bara spurning hvort þeir eru til og líka hvort þeir vilji koma til ÍBV í fyrstu deildina. Ef leikmenn eru ekki klárlega betri en þeir sem fyrir eru verða þeir a.m.k. að vilja semja til langtíma við félagið, ef þetta eru efnilegir strákar. Annars er enginn tilgangur í að fá leikmenn. Við eigum nefnilega fullt af efnilegum strákum hjá ÍBV sem vonandi láta að sér kveða í ár og næstu ár," sagði Heimir þjálfari að endingu.