Tveir leikir verða hjá strákunum í Lengjubikarnum (deildarbikar KSÍ) um helgina. Á laugardag leika þeir við Keflvíkinga í Reykjaneshöllinni. Í deildarbikarnum í fyrra léku liðin til undarnúrslita og höfðu Keflvíkingar betur 2-1 þar sem Bo Henriksen skoraði mark ÍBV og kom liðinu yfir áður en ÍBV skoraði sjálfsmark svo úr varð framlenging og þar gerði Guðmundur Steinarsson úti um leikinn. Síðast þegar þessi lið léku, má segja að Keflvíkingar hafi dregið tennurnar úr liði ÍBV í baráttunni við fallið í fyrra, því þeir skelltu ÍBV 6-2 í sögulegum leik þar sem fóru saman góður leikur Keflvíkinga, skelfilegur leikur ÍBV og vægast sagt slæmur dagur hjá dómara leiksins. Eyjamenn hafa oft gert betur í Keflavík en við sáum í fyrrasumar og á laugardaginn mun ungt ÍBV lið vonandi standa sig vel gegn heimamönnum, sem hafa bætt hressilega við leikmannahóp sinn frá í fyrra. Leikurinn hefst kl. 15.
Á sunnudag kl. 15 leika svo strákarnir við Fjölni í Egilshöll. Síðast léku þessi lið á sama stað í Deildarbikarkeppni KSÍ í fyrra, en þá sigraði ÍBV 3-0 með mörkum Bo Henriksen, Atla Jóh og Inga Rafns Ingibergssonar.