Fótbolti - Fjórar úr ÍBV í U-17 úrtaki

11.okt.2006  15:22

Fjórar stúlkur úr ÍBV voru á dögunum valdar í úrtakshóp U-17 ára liðs kvenna í knattspyrnu. Þær stúlkur sem fæddar eru 1990 og 1991 eru gjaldgengar í þetta lið sem meðal annars tekur þátt í Norðurlandamótinu næsta sumar.

Það voru þær Þórhildur Ólafsdóttir, Andrea Káradóttir, Eva María Káradóttir og Saga Huld Helgadóttir sem voru valdar úr ÍBV, en því miður forfallaðist Þórhildur vegna meiðsla og gat hún ekki tekið þátt í æfingunum sem voru um síðustu helgi. Þessar stúlkur eru vel að þessu komnar en þær eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér í fótboltanum, en þess má geta að Andrea, Eva María og Saga Huld eru á yngra ári þessa landsliðs og verða því gjaldgengar á næsta ári líka. Þessir tveir árgangar hjá ÍBV eru gríðarlega efnilegir og saman mynduðu þeir hinn geysisterka 3.flokk kvenna í sumar sem náði hreint frábærum árangri undir stjórn Óðins Sæbjörnssonar. Það eru því án efa fleiri stúlkur sem koma til með að banka á dyrnar hjá Kristrúnu Lilju Daðadóttur þjálfara 17 ára liðs Íslands.

Við viljum óska stelpunum innilega til hamingju með valið og hvetjum þær ásamt öðrum iðkendum félagsins til frekari dáða.