Silfurverðlaun var niðurstaðan hjá stelpunum í 3. flokki kvenna ÍBV eftir átök sumarsins í fótboltanum. Stelpurnar léku um helgina í úrslitakeppni og stóðu sig vel þrátt fyrir að hafa þurft að þola stórt tap gegn Breiðablik í úrslitaleiknum, 7-0. Í undanúrslitum sigraði ÍBV hins vegar Aftureldingu 2-1.
Stelpurnar komu heim í dag með Herjólfi og þar tók Jóhann Pétursson, formaður ÍBV, á móti þeim og færði þeim blómvönd. Ég vil óska ykkur til hamingju með þennan frábæra árangur. Ég veit að það er alltaf ferlega erfitt að fara í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn og tapa honum en þið vitið það að það er fullt af liðum sem myndi gefa aðra löppina fyrir að vera í ykkar sporum. Það eru gerðar miklar kröfur til ÍBV og þið hafið svo sannarlega staðið undir þeim, sagði Jóhann Pétursson þegar hann tók á móti stelpunum.