Fótbolti - KR-ÍBV kl. 19:15 í VISA-bikar karla í kvöld

24.júl.2006  01:01

- Mætum í Frostaskjólið og hjálpum strákunum að komast í undanúrslit

Í kvöld fara fram 8-liða úrslit í VISA-bikar karla þegar ÍBV sækir KR heim í Frostaskjólið. Þegar þessi lið mætast fer spennustigið venjulega vel yfir efri mörk og meðal áhorfenda er sjaldan lognmolla. Það er því ljóst að enginn verður svikinn af því að skella sér á KR-völlinn í kvöld þar sem barist verður allt til enda.

Liðin mættust síðan á Hásteinsvelli fyrir rúmum mánuði síðan eftir mikið bras KR-inga við að komast til Eyja. Þá voru það Atli Jóhannsson og Jonah Long sem tryggðu ÍBV sætan og sanngjarnan sigur með tveimur glæsilegum mörkum. Liðin hafa marga hildi háð í bikarnum og skemmst er að minnast þegar ÍBV sló KR út úr bikarnum þrjú ár í röð árin 96-98. Öll þau ár endaði ÍBV í úrslitaleik bikarsins og því ljóst að sigur á KR í bikarkeppninni er mikilvægur áfangi ef Eyjamenn ætla sér í úrslitaleik.

Páll Hjarðar tekur út síðari leik sinn í leikbanni eftir rauða spjaldið umdeilda gegn Keflavík og þá verður Vigfús Arnar Jósepsson í banni hjá KR eftir að hafa verið rekinn af velli í síðasta leik KR-inga gegn ÍA. Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19:15 og viljum við hvetja alla Eyjamenn á höfuðborgarsvæðinu til að skella sér á KR-völlinn og styðja strákana í baráttunni.

Komum fagnandi og syngjum ÁFRAM ÍBV !!