Fótbolti - HM taktar á Hásteinsvelli þegar ÍBV lagði KR

13.jún.2006  11:48

Tryggvi Kr. Ólafsson skrifar frá Hásteinsvelli..
 

Loksins eftir þrjár tilraunir var hægt að koma þessum leik á en hann átti upphaflega að vera sl. laugardag en sökum þoku var ekki hægt að fljúga til Eyja fyrr en í gær.

 

 

Leikurinn fór fjörlega af stað og voru bæði liðin búin að skapa sér færi eftir fyrstu tvær mínútur leiksins. Atli Jóhannsson átt skot strax á fyrstu mínútu sem Kristján í marki KR varði auðveldlega. Kristján kom boltanum fljótt í leik og komust KR-ingar upp að endamörkum og sendu boltan fyrir á fjærstöng þar sem Sigmundur Kristjánsson kom á ferðinni og skaut lágum bolta að marki ÍBV en Hrafn í marki ÍBV varði frábærlega með fótunum og í horn.

 

 

Eftir þetta náði KR yfirhöndinni og réðu nánast gangi leiksins fyrstu 20 mínútur leiksins án þess þó að skapa sér almennileg færi.

 

 

Það dróg síðan til tíðinda á 23 mínútu þegar Ulrik Drost sendi boltann inn á Atla sem var einn og óvaldaður fyrir utan vítateig, rétt fyrir miðju marki KR. Atli lét skotið vaða og lenti boltinn í þverslá efst í markhorninu vinstramegi og þaðan í netið. Sannarlega glæsilegt mark hjá Atla og var ekki síðra en þau mörk sem við höfum fengið að sjá á HM. Það má kannski segja að markið hafi komið gegn gangi leiksins en fram að þessu höfðu, eins og áður segir, KR-ingar verið meira með boltann.

 

 

Eftir markið jafnaðist leikurinn og fór að mestu leiti fram á miðjum vellinum og sköpuðu liðin sér fá marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, fyrir utan skalla sem Páll Hjarðar átti að marki KR eftir hornspyrnu.

 

 

Staðan í hálfleik 1-0.

 

 

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og áttu liðin engin færi svo heitið geti og var jafnræði með liðunum en þó voru KR-ingar frekar líklegri til að láta að sér kveða en Eyjamenn.

 

 

Á 62. mínútu fékk Ulrik Drost sendingu inn fyrir vörn KR og geystist fram en brotið var á honum við vinstra vítateigshorn KR og dæmd aukaspyrna. Eitthvað var Gunnlaugur Jónsson ósáttur við dóminn og spyrnti knettinum útaf og fékk við það að líta gula spjaldið. Aukaspyrnuna tók Jonah Long og sendi hann boltann með hnitmiðuðu skotið efst í markhornið fjær og jók þar með forystu Eyjamanna í 2-0. Sannarlega glæsilegt mark og þar með voru komin tvö glæsileg mörk á Hásteinsvelli sem sannarlega hefðu bæði sómað sér vel á HM.

 

 

Eftir markið lögðust Eyjamenn nánast í vörn og héldu KR-ingar boltanum meira og minna það sem eftir lifði leiks en náðu ekki að skapa sér færi. Eyjamenn voru reyndar líklegri til að auka forystuna með skyndisóknum sínum en þær runnu reyndar flestar út í sandinn. KR-ingar áttu hins vegar ágætt færi á lokamínútum leiksins en varnarmaður Eyjamanna bjargaði á línu og síðan náði Hrafn boltanum.

 

 

Það var allt annað að sjá til Eyjamanna í þessum leik en í síðustu tveimur heimaleikjum liðsins og er greinilegt að þeir Andri Ólafsson, Matt Garner og Ulrik Drost koma ferskir inn og styrkja liðið mikið. Þá er vörnin orðin þéttari en hún hefur verið og náðu þeir Páll Hjarðar og Christopher Vorenkamp að halda vörninni vel saman. Andri var sterkur á miðjunni ásamt Bjarna Geir. Besti maður vallarins var að þessu sinni Atli Jóhannsson sem var mjög hreyfanlegur og átti marga góða spretti. Þá skoraði hann glæsilegt mark en það hefur einmitt verið hans aðall að skora glæsileg mörk.

 

 

Hjá KR- voru eyjamaðurinn Bjarnólfur Lárusson og skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson áberandi bestir. Annars var undarlegt að sjá til KR-liðsins því þeir virðast geta haldið boltanum vel innan liðsins en eiga hins vegar í miklum vandræðum með að skapa sér færi og voru oft á tíðum mjög fyrirsjáanlegir í aðgerðum sínum. Menn eins og Grétar Ólafur Hjartarson og Rógvi Jacobsen sáust varla í leiknum og áttu að þessu sinni ekkert í Eyjavörnina.

 

 

 

 

 

 

 

 

Landsbankadeildin:

 

Hásteinsvöllur mánudaginn 12. júní 2006 kl. 20:00

Lið: ÍBV-KR

Lokatölur: 2-0

Hálfleikstölur: 1-0

Aðstæður: Ágætar, völlur góður, en blautur

Veður: Norðan kaldi, hiti 8-10 gráður.

Áhorfendur: 500-600

Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 6

Maður leiksins: Atli Jóhannsson

Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 7 (Ólafur Ragnarsson )