Eyjamenn voru skotnir niður á jörðina í Kópavogi eftir góðan sigur á Keflavík í fyrsta leik. Það er alveg dagljóst að eyjamenn verða að ná stigum á heimavelli ef liðið ætlar að gera eitthvað í mótinu. Hjá eyjamönnum er Andri Ólafsson enn meiddur og Matt Garner er ekki ennþá kominn með leikheimild en Chris Vorenkamp og Ingi Rafn Ingibergsson voru komnir úr banni. Valsmenn mæta hér til leiks með bakið þétt upp við vegginn og eftir að hafa tapað fyrstu leikjunum verða þeir að vinna hér ef þeir ætla að gera eitthvað í þessu móti. Ekki verður séð annað en að Valsmenn mæti til leiks með sitt sterkasta lið.
Valsmenn byrjuðu mun betur þótt þeir væru að spila á móti vindi og á fyrstu fimm mínútum leiksins áttu bæði Guðmundur Benediktsson og Steinþór Gíslason góð skot sem fóru rétt framhjá. Eyjamenn áttu í nokkrum erfiðleikum í byrjum og var Matthías Guðmundsson þeim mjög erfiður. Fyrsta færi heimamanna kom eftir 10. mínútur en þá átti Atli Jóhannsson góða aukaspyrnu en Bo Henriksen náði ekki til boltans. Á 17. mínútu dró til tíðinda en þá átti Guðmundur Benediktsson góða aukaspyrnu fyrir markið og Matthías Guðmundsson átti góðan skalla á markið sem Hrafn varði vel en boltinn barst aftur til Matthíasar sem hafði allan tíma í heimi til að koma honum í markið sem hann gerði. Þarna voru varnamenn eyjamanna algjörlega sofandi en Valsmenn voru verðskuldað komnir yfir. Eyjamenn léku undan vindi en náðu ekki upp neinu spili til að setja Valsmenn í teljandi vandræði þó voru smá kippir í lok hálfleiksins en þá skallaði Bjarni Geir framhjá í góðu færi og Atli átti fast skot beint á Kjartan í marki Vals. En í hálfleik voru Valsmenn verðskuldað yfir.
Seinni hálfleikur var varla byrjaður þegar Valsmenn voru búnir að bæta við öðru marki og var þar að verki Garðar Gunnlaugsson en Birkir Sævarsson sendi góða sendingu á fjærstöng þar sem Garðar mætti eins og alvöru framherji og skoraði örugglega. Eyjamenn voru alveg út á þekju og greinlegt að hálfleiksræða þjálfarans hefur ekki náð til manna því þeir voru alls ekki tilbúnir í leikinn eftir hlé. Valsmenn héldu frumkvæði fyrstu mínútur seinni hálfleiks eftir þetta mark en á 55. mínútu meiddist Bo Henriksen og þurfti að fara af leikvelli og virtist nokkuð kvalin sem eru ekki góðar fréttir fyrir eyjamenn þar sem ekki er mikið um framherja hjá liðinu eins og er. Eyjamenn gerðu tvöfalda skiptingu þegar Bo meiddist og inn á komu Ingi Rafn Ingibergsson og Pétur Runólfsson og við þessa skiptingu hresstust heimamenn aðeins og tveimur mínútum seinna átti Pétur góða bakfallsspyrnu sem fór í utanverða stöngina hjá Val. En Valsmenn voru alltaf hættulegir og fengu ágæt færi, til að mynda komst Garðar í gegn eftir góðan undirbúning Guðmundar Ben en Hrafn varði vel. Eyjamenn fengu síðan dauðafæri á 74. mín en þá komst Sævar Eyjólfsson í gegn en Kjartan varði mjög vel. Eftir þetta voru Valsmenn hættulegri og áttu nokkur ágæti færi sem þeir nýttu ekki en á 89 kom löng sending frá vörn Vals á Garðar Gunnlaugs sem átti ekki í vandræðum með að skora framhjá Hrafni í markinu og athyglisvert var að ekki neinn af varnarmönnum eyjamann hreyfði sig. Eftir þetta gat lokaflautið ekki komið nógu snemma fyrir heimamenn.
Eftir góðan sigur á Keflavík í fyrsta leik þar sem vonir um gott sumar vöknuðu þá er nokkuð ljóst að ef liðið spilar svona áfram er ekkert nema fallbarátta sem bíður liðsins. Vörnin var ósamstíg og þarf að vinna vel í samskiptum manna á milli því menn eru ekki að vinna nægjanlega vel saman, Hrafn í markinu verður ekki sakaður um mörkin og varði vel í nokkrum tilfellum. Miðspil heimamanna var í molum og allt of mikið var um slæmar sendingar og eðlilega náðu sóknarmenn eyjamanna sér ekki á strik. Valsmenn léku vel í þessum leik og voru mjög þéttir og gáfu fá færi á sér. Vörn þeirra og markvörður voru mjög góðir og sérstaklega var miðvarðapar þeirra, þeir Valur Fannar og Atli Sveinn öflugir. Miðja Valsmann var sterk með Kristinn Hafliðason fremstan í flokki en þótt hann væri ekki áberandi þá var gríðarlega duglegur í að brjóta upp sóknir eyjamanna og koma boltanum í leik með einföldu spili. Sóknarmenn Valsmanna voru til stanslausra óþæginda allan leikinn og voru eyjamenn sérstaklega í vandræðum með hinn eldfljóta Matthías Guðmundsson og svo er Guðmundur Benediktsson alltaf erfiður og Garðar Gunnlaugsson skoraði tvisvar. Í heildina sé var Valur þrepi fyrir ofan ÍBV í þessum leik og sigur þeirra sanngjarn og eyjamann bíður leikur upp á líf og dauða við Víkinga næsta sunnudag.
Landsbankadeildin:
Hásteinsvöllur fimmtudaginn 25. maí 2006 kl. 19:15.
Lið: ÍBV-Valur
Lokatölur: 0-3
Hálfleikstölur: 0-1
Aðstæður: Völlurinn í frábæru standi
Veður: Vindur og skítakuldi.
Áhorfendur: 450-550
Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 7
Maður leiksins: Valur Fannar Gíslason
Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 8 (Kristinn Jakobsson)
ÍBV
Byrjunarlið
1. Hrafn Davíðsson(M)
2. Andrew Mwesigwa
4. Jonah Long
7. Atli Jóhannsson
8. Sævar Eyjólfsson
10. Bo Henriksen
11. Chris Vorenkamp
14. Bjarni Geir Viðarsson
16. Bjarni Rúnar Einarsson
18. Anton Bjarnason
21. Páll Hjarðar (F)
Varamenn
5. Thomas Lundbye
9. Pétur Runólfsson
13. Arilíus Marteinsson
20 Bjarni Hólm Aðalsteinsson
22. Davíð Egilsson
23. Ingi Rafn Ingibergsson
25. Guðjón Magnússon (M)
Skiptingar
55. mín. Pétur Runólfsson fyrir Bo Henriksen
55. mín. Ingi Rafn Ingibergsson fyrir Bjarna Rúnar Einarsson
73. mín. Thomas Lungbye fyrir Chris Vorenkamp
Spjöld
22. mín. Páll Hjarðar, gult
33. mín Atli Jóhannsson, gult
46. mín. Anton Bjarnason, gult
Hornspyrnur: 3
Valur
Byrjunarlið
1. Kjartan Sturluson (M)
3. Steinþór Gíslason
4. Valur Fannar Gíslason
5. Atli Sveinn Þórarinsson
6. Birkir Már Sævarsson
7. Sigurbjörn Hreiðarsson (F)
8. Pálmi Rafn Pálmason
9. Garðar Bergmann Gunnlaugsson
11. Matthías Guðmundsson
14. Kristinn Hafliðason
23. Guðmundur Benediktsson
Varamenn
2. Barry Smith
12. Jakob Spangsberg Jensen
16. Baldur Aðalsteinsson
20. Ari Freyr Skúlason
22. Andri Valur Ívarsson
24. Sigurður Bjarni Sigurðsson
27. Örn Kató Hauksson
Mörk
17. mín. Matthías Guðmundsson (0-1)
46. mín. Garðar Gunnlaugsson (0-2)
84. mín. Garðar Gunnlaugsson (0-3)
Skiptingar
87. mín. Örn Kató Hauksson fyrir Sigurbjörn Hreiðarsson
89. mín. Jakob Spangsberg Jensen fyrir Matthías Guðmundsson
89. mín. Baldur Aðalsteinsson fyrir Guðmundur Benediktsson
Spjöld
14 mín. Sigurbjörn Hreiðarsson, gult
21. mín. Matthías Guðmundsson, gult
72. mín. Birkir Már Sævarsson, gult
Hornspyrnur: 4