Þeir Heimir Hallgrímsson, Hjalti Kristjánsson og Guðlaugur Baldursson útskrifuðust allir síðasta föstudag með UEFA-A þjálfaragráðu frá KSÍ. Þetta er hæsta þjálfaragráða sem í boði er á Íslandi og næst hæsta þjálfaragráða sem UEFA viðurkennir. 22 þjálfarar útskrifuðust með gráðuna en Heimir fékk sérstök verðlaun fyrir að dúxa á prófinu.
Þeir þjálfara sem hlotið hafa UEFA-A þjálfaragráðuna hafa leyfi til að þjálfa alla flokka og í öllum deildum á Íslandi en auk þess er þjálfaragráðan viðurkennd í 48 af 52 aðildarlöndum UEFA. Hæsta þjálfaragráða UEFA er svo UEFA Pro þjálfaragráða, en KSÍ stefnir á að bjóða upp á UEFA Pro þjálfaragráðu í samvinnu við enska knattspyrnusambandið innan fárra ára.
Heimir þjálfaði sem kunnugt er meistaraflokk kvenna til margra ára auk þess sem hann tók við meistaraflokki karla tímabundið. Þá hefur hann þjálfað yngri flokka félagsins til fjölda ára og er nú þjálfari sjötta flokks félagsins ásamt eiginkonu sinni, Írisi Sæmundsdóttur. Hjalti Kristjánsson hefur þjálfað KFS undanfarin 11 ár og mun halda því áfram í sumar. Guðlaugur Baldursson er svo að hefja sitt annað tímabil með meistaraflokk karla, ÍBV.
Þess má svo geta að Eyjamaðurinn Jón Ólafur Daníelsson, sem nú er þjálfari yngri flokka í Grindavík, útskrifaðist á sama tíma og þremenningarnir.
Tekið af eyjafrettir.is