Öll skrifara-hirðin hjá okkur var í sumarfríi þegar ÍBV lék gegn Grindavík og fengum við Tómas Jóhannesson til að hripa niður nokkrar línur eftir leikinn og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
ÍBV átti sannkallaðan stjörnuleik í kvöld og miðað við stöðu liðanna í deildinni fyrir leikinn var ótrúlegur munur á þessum liðum, þótt ekki sé hægt að segja að Grindvíkingar hafi verið lélegir. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og var taugatitringur hjá eyjamönnum í byrjun og lítið sást af góðum leik. Eftir 10 mín. sviðsskrekk fóru heimamenn að hressast. Á 12 mínútu átti Pétur Óskar góða rispu upp kantinn, komst inn í teig og skaut föstu skoti í hliðarnetið. Eyjamenn skoruðu á 16 min eftir vandræðagang í vörn Grindvíkinga og Andri náði að koma koma boltanum í netið, eftir ágætan undirbúning Rune Lind. Vel gert hjá Andra. Fyrsta hættulega færi Grindvíkinga kom á 19 mín eftir að há fyrirgjöf sneiddi fram hjá stönginni. Eftir þetta gerðu eyjamenn harða hríð að Grindavíkurmarkinu og áttu fjölmargar hættulega fyrirgjafir frá báðum köntum og voru Atli, Jeffs og Rune Lind þar í aðalhlutverki.
Á 37. mínútu brunaði Jeffs upp hægri kantinn, lék á hvern leikmanninn af öðrum, komst inn í teig en Grindvíkingum tókst naumlega að bjarga málum áður en Jeffs kom boltanum í netið. Annað mark IBV kom á 39.mín eftir góða samvinnu Rune Lind og Atla, og eftir klafs milli Péturs Óskars og markvarðar barst boltinn til Péturs Run sem lét vaða með viðkomu í varnarmanni Grindavíkur. Á 40.mínútu áttu Grindvíkingar ágætis færi en Hrafn varði glæsilega. Grindvíkingar áttu hættulegt færi á 43. mínútu og náðu eyjamenn að bjarga eftir mikinn darraðadans inni í vítateig.
Síðari hálfleikur byrjaði með látum og skoraði Pétur Óskar eftir stungusendingu frá Rune Lind og slökkti þar með á öllum vonum Grindvíkinga. Á fimmtugustu mínútu átt Atli þrumuskot rétt framhjá, eftir að hafa leikið á markmanninn. Á þessum tíma fórum eyjamenn á kostum og hver sóknin rak aðra þar sem oft á tíðum voru sýnd glæsileg tilþrif. Rune Lind renndi boltanum fram hjá markverði úr upplögðu færi á 56 min.en einnig fram hjá stönginni. Á 59 mín var Óli Stefán Grindvíkingur nærri því að skora með því skutla sér á fyrirgjöf en Hrafn varði ágætan skalla frá honum. Grindvíkingar hresstust við þetta og áttu nokkrar ágætar sóknir en skutu yfir. Steingrímur skipti við Atla á 63.min. og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Hann skoraði eftir sendingu frá Pétri Óskari þegar þeir sluppu inn fyrir vörnina. 4-0. Eyjamenn áttu nokkrar góðar sóknir í framhaldinu af þessu og ma varði markvörður Grindavíkur hnitmiðað skot Heimis neðst út við stöng. Á 72 mín. prjónuðu gestirnir sig í gegnum vörn IBV en Hrafn var vandanum vaxinn og varði mjög vel. Steingrímur fékk úrvalsfæri stuttu síðar en vantaði ákveðnina til að klára dæmið. Grindvíkingar áttu skyndisóknir inn á milli og úr einni fengu þeir aukaspyrnu við vítateigshornið vinstra megin. Þeir skoruðu glæsilegt mark úr aukaspyrnunni, Robert Niestrjo, upp í fjærhornið, óverjandi fyrir Hrafn, 4-1. Stuttu síðar átti Óli Stefán hörkuskot í þverslána og sluppu eyjamenn vel þar. Undir lok leiksins áttu eyjamenn ágæta sókn upp vinstri kantinn og fékk Platt boltann frá Steingrími, út í teiginn hægra megin, hann var ekkert að hika og þrumaði boltanum í netið án þess að markvörður Grindavíkur ætti séns. 5-1.
Þessi leikur ÍBV hlýtur að teljast með þeim betri í sumar, og hafa reyndar síðustu tveir leikir liðsins verið ágætir. Það bendir margt til þess að liðið sé núna fyrst að ná áttum og hafa tveir nýjustu leikmenn liðsins veitt því aukinn styrk. Það má lítið út af bregða, en ef leikmenn ÍBV spila fleiri svona leiki þá ættu að bætast við nokkur stig í viðbót.
Þetta var sigur liðsheildarinnar og erfitt að taka leikmenn út úr þessu, flestir að spila vel.