Fótbolti - SKYLDUMÆTING

17.ágú.2005  21:45

- Frítt á völllinn í boði Magga Kristins og fjölskyldu

Í kvöld fimmtudag mætast ÍBV og Grindavík í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 19:00 en hann er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og hefur mikið að segja um hvort liðið kemur til með að falla í 1.deild þegar Íslandsmótinu lýkur nú í haust. ÍBV er sem stendur í neðsta sæti með 10 stig eins og Þróttarar, en Grindavík eru með 12 stig þar fyrir ofan. Með sigri komast Eyjamenn úr fallsæti en á sunnudaginn koma einmitt Þróttarar í heimsókn til Eyja í öðrum mikilvægum leik í fallbaráttunni.

Strákarnir okkar mættu KR síðastliðinn sunnudag þar sem þeir biðu lægri hlut, 1-0, í leik sem þeir áttu síst minna í. Andri Ólafsson og Heimir Snær Guðmundsson koma aftur inn í liðið nú eftir leikbann á sunnudaginn og er langt síðan að Guðlaugur Baldursson þjálfari hefur haft úr jafn stórum hóp að velja og nú. Grindavík burstaði Fylki 3-0 í sínum síðasta leik og því ljóst að þeir mæta með sjálfstraust til Eyja og verða síður en svo auðveldur andstæðingur.

Það er ljóst að áhorfendur koma til með að spila stóran þátt í leiknum á morgun. Góður stuðningur áhorfenda gefur strákunum okkar aukinn kraft sem nýtist þeim vel inni á vellinum. Magnús Kristinsson útgerðarmaður og fjölskylda hans hefur ákveðið að bjóða áhorfendum á leikinn og því ekkert að vanbúnaði að drífa sig á Hásteinsvöll klukkan 19:00 og hvetja strákana okkar til dáða. Köllum ÁFRAM ÍBV og hjálpum strákunum í baráttunni um úrvalsdeildarsæti því þar eiga þeir heima og hvergi annars staðar.