Fótbolti - Sigurganga FH heldur áfram

25.júl.2005  08:39

Hafsteinn Gunnarsson skrifar frá Hásteinsvelli

Það var ekki traustvekjandi að lesa yfir byrjunarlið ÍBV í þessum erfiða leik á móti íslandsmeisturum FH. Lánsmennirnir frá FH fengu ekki að spila, Bjarni Geir í leikbanni og Steingrímur og Ian Jeffs meiddir. FH var án Heimis Guðjónssonar og Tommy Nielsen en hópurinn hjá þeim þolir töluvert meiri forföll en hópurinn hjá eyjamönnum. Nýr leikmaður spilar sinn fyrsta leik fyrir eyjamenn en það er danskur leikmaður Rune Lind að nafni.

FH byrjaði leikinn af krafti og leist heimamönnum hreint ekkert á blikuna því FH pressaði mikið og höfðu öll völd í byrjun. Á 3.mín komst Tryggvi Guðmundsson einn í gegn en kunni greinilega ekki við að skora á móti sínu gamla félagi og skaut því framhjá, óvanalegt að sjá þennan mikla markaskorara fara svona illa með færi. Á 5. mín féll Jón Þorgrímur í vítateig eyjamanna og vildi fá eitthvað fyrir sinn snúð og virtist hann hafa eitthvað til síns máls en eins svo oft áður þá kemur það á óvart hvað það þarf lítið til þrautþjálfaðir knattspyrnumenn falli spurnig um að senda þá aðeins í lyftingaþjálfun. Eftir þessa góðu byrjun FH náðu eyjamenn að komast meira inn í leikinn án þess þó að skapa sér færi og voru næstu mínútur töluverður barningur án nokkurs árangurs. Á 19. mín. átti Bjarni Rúnar hættulitla sendingu inn í teig FH en Daði Lárusson féll við og missti boltann yfir sig en Andrew Sam var ekki nógu vakandi til að nýta sér þessi mistök og boltinn skoppaði framhjá markinu. Á 25. mín. gerði Davíð Þór Viðarsson árás á Birki Kristinsson í marki eyjamanna með þeim afleiðingum að Birkir þurfti að yfirgefa völlinn með brotið viðbein og er það í fyrsta skiptið síðan 1984 sem það gerist að hann ferð meiddur af leikvelli. Davíð Þór fékk gult spjald fyrir viðvikið og var ósáttur með það sem vakti nokkra furðu því brotið verðskuldaði rautt spjald og ekkert annað. FH sótti meira það sem eftir lifði hálfleiksins og áttu nokkur færi án þess að ná að nýta þau. Til að mynda átti Baldur Bett gott skot á 35. mín. en það fór í slánna og yfir og Jón Þorgrímur skallaði yfir í dauðafæri á 43. mín. Andri Ólafsson komst næst því að skora fyrir heimamenn en Daði Lárusson varð skalla hans nokkuð örugglega á 32. mín. Á 45. mín. dró til tíðinda en þá renndi Andri Ólafsson sér og spyrnti boltanum burt en Davíð Þór Viðarsson renndi sér í sama bolta en var aðeins og seínn og fór því í lappirnar á Andra. Dómari leiksins sá ástæðu til að áminna Davíð Þór fyrir brotið og þar sem hann var þegar kominn með áminningu var honum því vísað af velli, áminning fyrir þetta brot var nokkuð strangur dómur en væntanlega hefur réttlætinu verið fullnægt.

Seinni hálfleikur byrjaði nokkuð fjörlega en Allan Borgvardt komst í gegn en Hrafn Davíðsson varði skot hans vel. Eyjamenn fengu sitt besta færi á 51. mín. en þá endaði góð sókn þeirra með því að Rune Lind lagði boltann út á Platt en hann skaut rétt framhjá. FH komst síðan yfir á 53. mín en þá komst FH í skyndisókn sem endaði með því að barst til Ásgeirs Ásgeirssonar í teig eyjamanna og skot hans hafði viðkomu í Bjarna Hólm og sveif yfir Hrafn Davíðsson í markinu, vel að verki staði hjá Ásgeiri sem spilaði sem miðvörður en skeiðaði fremstur í flokki FH í þessa skyndisókn og skoraði gott mark. Eftir þetta dofnaði verulega yfir leiknum og reyndu FH allt sem þeir gátu til að drepa hann niður og var í raun ótrúlegt að sjá með þeir komust upp með að taka langan tíma í alla hluti hjá slökum dómara leiksins. Eyjamenn reyndu eins og þeir gátu til að jafna en varð lítið ágengt. Andri Ólafsson átti gott skot á 55. mín sem Daði varði vel í horn, Andrew Sam átti skalla á 70. mín en hann fór í varnarmann og yfir. FH átti sín færi og á 87. mín. dansaði Atli Viðar Björnsson framhjá nokkrum varnarmönnum en skot hans fór rétt framhjá. Eyjamönnum varð lítið ágengt það sem eftir lifði leiksins við að brjóta vörn FH á bak aftur og enn einn sigur FH var því staðreynd.

Eyjamenn geta borið höfuðið hátt eftir þennan leik því leikur liðsins var nokkuð góður og miðað við hvað marga menn vantaði í liðið verður það að teljast nokkuð gott hversu mikla keppni þeir veittu FH. Vörn og markvarsla liðsins var nokkuð góð og fengu sóknarmenn FH ekki úr miklu að moða í þessum leik. Eftir að Birkir fór af velli kom Hrafn Davíðsson sterkur inn og stóð sig vel. Miðverðir liðsins stóðu sig vel að vanda og sérstaklega átti Páll Hjarðar góðan dag, Bjarni Rúnar Einarsson var óvænt bakvörður í leiknum en stóð fyrir sínu og Pétur Runólfsson var traustur að vanda en hann fékk það erfiða verkefni að glíma við Tryggva Guðmundsson. Miðjuspil eyjamanna hefur oft verið betra enda var við ramman reip að draga en baráttan og viljinn var til staðar og það skilaði miklu. Ungur eyjamaður Anton Bjarnason var að byrja inn á í sínum fyrsta deildarleik og stóð sig vonum framar og einnig var Rune Lind að gera góða hluti og á hann væntanlega eftir að nýtast eyjamönnum vel á lokasprettinum. Andrew Sam var einn í sókn eyjamanna og réð alls ekki við það verkefni og verður að segjast eins og er að hann er hreinlega ekki nægjanlega sterkur leikmaður til að bera uppi sóknarleik liðsins og var greinilegt að eyjamenn söknuðu Steingríms og Péturs Óskars i þessum leik. Leikur FH var ekkert til að hrópa húrra fyrir en þeir gerðu það sem þurfti að til vinna leikinn og sýnir það styrk þeirra að geta unnið leik þótt þeir spili ekki vel og vera manni færri í seinni hálfleik. Vörn þeirra er feikisterk með Auðun Helgason fremstan í flokki. Dennis Sim tók stöðu Heimis Guðjónssonar sem kjölfesta í miðjunni og var góður, Baldur Bett og Davíð Þór voru hreyfanlegir og hættulegir fram af leik en voru Davíð Þór fór í sturtu snemma og Baldur náði sér ekki á strik í seinni hálfleik. Sóknarmenn FH eru alltaf hættulegir en hafa væntanlega átt betri dag en það er kannski til marks um hvað eyjamenn voru þéttir varnarlega að Allan Borgvardt og Tryggvi Guðmundsson fengu einungis eitt færi hvor um sig og hefur það væntanlega ekki gerst oft í sumar.

Það er ekki hægt að fjallu um þennan leik nema nefna það hversu dómari leiksins leyfði FH að drepa leikinn niður en það var ótrúlegt að horfa á það trekk í trekk að FH fékk upp undir mínútu til að framkvæma aukaspyrnur, innköst, útspörk og horn. Þetta á ekki líðast og einnig á það ekki að líðast að þjálfari og aðstoðarþjálfari liðs sé leyft að rífa kjaft og formæla dómurum og línuvörðum allan leikinn og er svona hegðun ekki sæmandi liðs sem telur sig besta liðs landsins. Einnig hafa FH –ingar verið að berja sér á brjóst varðandi það að þeir eigi bestu stuðningamenn landsins en verður að segjast eins og er að framkoma þeirra í þessum leik var þeim ekki til framdráttar en í fyrri hálfleik var fáni styrktaraðila efstu deildar(Landsbankans) dregin niður við völlinn og fremur ósmekklegur FH fáni var dregin upp í staðinn. Ef ég væri eigandi þess fyrirtækis sem styrkti deildina myndi ég vera verulega ósáttur við svona vanvirðingu svo að ekki sé talað um það að sami aðili skuli einnig vera aðal styrktaraðili viðkomandi félags. Það er vonandi að þetta svokallaða besta félag landsins fá orð í eyra fyrir þessa framkomu og bæti sína framkomu því það er greinlega ekki vanþörf á.

Landsbankadeildin:

Hásteinsvöllur sunnudaginn 24.júlí 2005 kl. 18:00.

Lið: ÍBV-FH

Lokatölur: 0-1

Hálfleikstölur: 0-0

Aðstæður: Völlurinn í frábæru ástandi 

Veður: Sól og blíða

Áhorfendur: 500-550

Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 5

Maður leiksins: Páll Hjarðar

Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 2(Ólafur Ragnarsson)



ÍBV

Byrjunarlið

1. Birkir Kristinsson (F)(M)

2. Páll Þorvaldur Hjarðar

6. Andri Ólafsson

7. Atli Jóhannsson

9. Pétur Runólfsson

10. Rune Lind

15. Matthew Platt.

16. Bjarni Rúnar Einarsson

18. Andrew Sam

20. Bjarni Hólm Aðalsteinsson

21. Anton Bjarnason

Varamenn

6. Einar Hlöðver Einarsson

12. Hrafn Davíðsson ( M )

19. Egill Jóhannsson

22. Hilmar Ágúst Björnsson

13. Hafþór Einarsson

Mörk

Skiptingar

25. mín. Hrafn Davíðsson fyrir Birki Kristinsson

61. mín. Egill Jóhannsson fyrir Anton Bjarnason

Spjöld

45. mín. Bjarni Rúnar Einarsson, gult

84. mín. Andri Ólafsson, gult

Hornspyrnur: 6

KR

Byrjunarlið

1. Daði Lárusson (F)(M)

2. Auðun Helgason

3. Dennis Michael Siim

5. Freyr Bjarnason

6. Ásgeir Gunnar Ágeirsson

8. Baldur Bett

9. Tryggvi Guðmundsson

11. Jón Þorgrímur Stefánsson

14. Guðmundur Sævarsson

22. Allan Borgvardt

27. Davíð Þór Viðarsson

Varamenn

7. Jónas Grani Garðarsson

15. Ármann Smári Björnsson

17. Atli Viðar Björnsson

19. Ólafur Páll Snorrason

28. Ólafur Þór Gunnarsson (M)

Mörk

53. mín. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson

Skiptingar

71. mín. Atli Viðar Björnsson fyrir Jón Þorgrím Stefánsson

Spjöld

21. mín. Davíð Þór Viðarsson, gult

45. mín. Davíð Þór Viðarsson, rautt.

89. mín. Tryggvi Guðmundsson, gult

Hornspyrnur: 5