Loksins lönduðu strákarnir stigi á útivelli. Þeir lentu tvisvar undir gegn Keflvíkingum í gærkvöld. Fyrst skoraði Hörður Sveinsson úr vítaspyrnu og staðan í hálfleik 0-1. Jafnaði ÍBV snemma í síðari hálfleik, þannig að fast skot Atla Jóhannssonar var varið út í teig Keflvíkinga og hrökk boltinn þar í Gest Gylfason og inn í mark heimamanna. Ólafur Jón Jónsson kom inná fyrir Guðmund Steinarsson, sem hafði oft gert usla í vörn Eyjamanna, en Ólafur kom Keflvíkingum yfir á ný með skalla eftir aukaspyrnu. Pétur Óskar Sigurðsson jafnaði svo leikinn fyrir ÍBV 10 mínútum fyrir leikslok.
Byrjunarlið ÍBV:Birkir Kristinsson, Bjarni Geir Viðarsson, Pétur Runólfsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Páll Þorvaldur Hjarðar, Atli Jóhannsson, Ian Jeffs, Heimir Guðmundsson, Andri Ólafsson, Steingrímur Jóhannesson, Pétur Óskar Sigurðsson. Varamenn: Hrafn Davíðsson, Matthew Platt(Steingrímur), Bjarni Rúnar Einarsson(Andri), Andrew Sam (Pétur Óskar), Anton Bjarnason.
Það er kærkomið að hirða fyrsta stigið á útivelli í sumar og megi þau vera enn fleiri. Stuðningsmenn ÍBV studdu vel við bakið á strákunum í þessum leik og var gaman að sjá strákana hyllta í lok leiksins. Megi okkur hljótast gæfa til að sjá meira af þessu það sem eftir lifir af sumrinu. Næst eru það Framarar í 8-liða úrslitum VISA-bikarsins á Laugardalsvelli á fimmtudag og vonast strákarnir að sjálfsögðu eftir öflugum stuðningi í þeim leik.