Hafsteinn Gunnarsson skrifar frá Hásteinsvelli
Eftir góðan sigur á Fram í deildinni er fróðlegt að sjá hvort eyjamenn geti fylgt því eftir en það hefur verið vandamál í sumar að stöðugleika hefur vantað í lið eyjamanna. Í evrópukeppni er oft lítið vitað um andstæðingana en þó vita menn það að þetta lið er á toppnum í formuludeildinni í Færeyjum og væntanlega eru þetta stórir og sterkir strákar eins og vænta má af frændum okkar.
B36 byrjuðu leikinn með látum og eftir 6. mínútur lá boltinn í neti eyjamanna. Bergur Midjord sendi fyrir markið og enginn náði til boltans og hann skoppaði í rólegheitunum í mark eyjamanna, frekar slysalegt mark. B36 voru mun grimmari í byrjun leiks og pressuðu stíft á varnarmenn og miðjumenn eyjamanna og unnu boltann oft af þeim á hættulegum stöðum og náðu í kjölfarið góðum sóknum sem þeir hefðu getað nýtt betur. Til að mynda varði Birkir vel skalla frá Niels Joensen. Eftir 15 mínútur fengu heimamenn sitt fyrsta færi en þá lagði Ian Jeffs boltann á Matthew Platt en skot hans var ekki nógu gott. Eftir þetta náðu eyjamenn betri tökum á leiknum en náðu ekki að skapa sér mörg færi en Pétur Óskar Sigurðsson komst í gegn á 19. mínútu en skotið var varið. Síðan átti Ian Jeffs skot á 20. mínútu en það fór beint á markmann B36. Á þessum kafla náðu eyjamenn að pressa nokkuð á B36 og unnu boltann á góðum stöðum og komu sér í færi. Á 25 jöfnuðu síðan eyjamenn leikinn og var aðdragandinn þannig að Pétur Óskar Sigurðsson vann boltann rétt utan vítateigs B36 og prjónaði sig í gegnum vörn þeirra og skoraði með góðu skoti, virkilega vel gert hjá Pétri. Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð og lítið markvert gerðist fram að leikhléi.
Seinni hálfleikur var heldur daufari en fyrri hálfleikur ef það var þá hægt. Eyjamenn voru nær því að skora og komust til að mynda nokkrum sinnum upp að endamörkum en sendingar fyrir markið voru ekki nægjanlega góðar. Matthew Platt komst í gott færi á 65. mínútu eftir sendingu frá Bjarna Geir en markvörður B36 varði vel. Pétur Óskar fékk boltann eftir horn á 66. mínútu en skot hans fór framhjá. B36 dró sig nokkuð til baka þegar leið á leikinn og reyndu hvað þeir gátu að drepa leikinn og voru mjög lengi að öllu. Þeir voru þá nálægt því að stela sigri í leiknum á 71. mínútu en þá slapp Allan Mörkere einn í gegnum vörn eyjamanna en Birkir varði meistaralega í markinu. Á 88. mínútu komst síðan Bergur Midjord í gegn en besti maður vallarins Pétur Runólfsson bjargaði meistaralega með góðri tæklingu. Fljótlega eftir þetta flautaði dómari leiksins til leiksloka við mikinn fögnuð frænda vorra frá Færeyjum.
Leikur heimamanna olli nokkrum vonbrigðum en menn voru að missa boltann klaufalega frá sér á hættulegum stöðum. Vörn liðsins var köflótt og áttu Páll Hjarðar og Pétur Runólfsson góðan dag en Bjarni Geir og Bjarni Hólm hafa átt betri daga og er gott að eiga þá inni fyrir seinni leikinn. B36 spiluðu mjög fast og á köflum gróft og náðu þeir að brjóta allt miðjuspil eyjamanna niður með því og náðu menn ekki að vinna sig almennilega út úr þeirri pressu sem B36 settu á leikmenn ÍBV. Sóknarmenn eyjamanna höfðu ekki úr miklu að moða og náðu því ekki að sýna sitt besta en Pétur Óskar náði þó að skora en það var eftir einstaklingsframtak en ekki gott spil. Í heildina geta eyjamenn bætt leik sinn verulega og er það vonandi að það takist í næstu leikjum. Frændur vorir frá Færeyjum spiluðu þennan leik mjög skynsamlega og pressuðu varnarmenn eyjamann og miðjumenn stíft og eftir því sem á leikinn leið drógu þeir sig aftar á völlinn og náðu að drepa leikinn niður mjög skynsamlega. Í þessum leik sást mjög greinilega munurinn á leik í deildarkeppni og evrópukeppni og þurfa eyjamenn að vera fljótir að læra hvernig á að spila leik í þessari keppni og verða þeir að vera mjög skynsamir þegar liðin mættast eftir viku í Færeyjum. Um B36 er það að segja að þeir spiluðu mjög skynsamlega og voru mjög duglegir að brjóta á eyjamönnum og fengu til að mynda 4 gul spjöld á móti engu hjá eyjamönnum. Í heildina séð frekar leiðinlegur leikur og vonbrigði með úrslit hans.
Evrópukeppni félagsliða:
Hásteinsvöllur fimmtudaginn 14. júlí 2005 kl. 18:00.
Lið: ÍBV-B36, Færeyjum
Lokatölur: 1-1
Hálfleikstölur: 1-1
Aðstæður: Völlurinn í frábæru ásigkomulagi
Veður: Sól og blíða
Áhorfendur: 400-450
Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 4
Maður leiksins: Pétur Runólfsson
Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 8(Adrian Mc Dowell)
ÍBV
Byrjunarlið
1. Birkir Kristinsson (F)(M)
2. Páll Hjarðar
3. Bjarni Geir Viðarsson
4. Matthew Platt
5. Bjarni Hólm Aðalsteinsson
6. Heimir Snær Guðmundsson
7. Atli Jóhannsson
8. Ian David Jeffs
9. Pétur Runólfsson
10. Pétur Óskar Sigurðsson
11. Steingrímur Jóhannesson
Varamenn
12. Hrafn Davíðsson
13. Anton Bjarnason
14. Hilmar Björnsson
15. Einar Kristinn Kárason
16. Bjarni Rúnar Einarsson
17. Egill Jóhannsson
18. Andrew Sam.
Mörk
25. mín. Pétur Óskar Sigurðsson ( 1-1)
Skiptingar
60. mín. Bjarni Rúnar Einarsson fyrir Steingrím Jóhannesson .
72. mín. Andrew Sam fyrir Matthew Platt.
88. mín. Egill Jóhannsson fyrir Pétur Óskar Sigurðsson
Spjöld
Enginn
Hornspyrnur: 4
B36
Byrjunarlið
6. Heinesen Ingi Höjsted
8. Mikkjal Thomassen
10. Fróði Benjaminssen
14. Niels Joensen
15. Kenneth Jacobsen
19. Pól Axel Thorsteinsson
20. Bergur Midjord
22. Klæmint Matras
Varamenn
21. Magnus Emil Poulsen
4. Herman Bogi Hermansen
7. Da Silva Wellington Soares
9. Okeke Obele Onyebuchi
11. Aröna Levi Hanssen
17. Hofgaard Bárdur Joensen
23. Viderö Jóhan Gunnarsson
Mörk
6. mín. Bergur Midjord. (0-1)
Skiptingar
86. mín. Aröna Levi Hanssen fyrir Niels Joensen
89. mín. Hofgaard Bárdur Joensen fyrir Heinesen Ingi Höjsted
Spjöld
22. mín. Fróði Benjaminssen
31. mín. Allan Mörkere
55. mín. Mikkjal Thomassen
80. mín. Bergur Midjord
Hornspyrnur: 3