ÍBV tók á móti Val í kvöld í átta liða úrslitum Visabikars kvenna og fór leikurinn fram á Hásteinsvellinum. Þessi sömu lið léku einmitt til úrslita í bikarkeppninni í fyrra þar sem ÍBV hafði betur. En síðast þegar þessi lið léku á Hásteinsvellinum niðurlægðu Íslandsmeistararnir ÍBV með 1:7 sigri. Og Valsstúlkur endurtóku leikinn í kvöld, unnu nú 1:6 og áttu þær sigurinn fyllilega skilið.
Leikurinn var þó jafnari en lokatölurnar gefa til kynna framan af, Hólmfríður Magnúsdóttir fékk t.d. dauðafæri strax á sjöundu mínútu en misnotaði það eins og reyndar ÍBV gerði mjög oft í leiknum. Framganga dómara leiksins var þeim ekki til framdráttar, aðstoðardómararnir voru afar illa staðsettir lengst af og létu það bitna á leiknum. Þá sleppti dómari leiksins því að vísa Írisi Andrésdóttur af velli í stöðunni 1-0 þegar hún rændi Suzanne Malone augljósu marktækifæri þegar hún var að sleppa í gegn og hefði það sjálfsagt breytt gangi leiksins ÍBV í hag.
En Valsstúlkur gerðu út um leikinn á tveggja mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks þegar Dóra María Lárusdóttir skoraði tvö mörk í röð og kom Val fjórum mörkum yfir. En lokatölur urðu eins og áður hefur komið fram, 1:6 og er ÍBV því úr leik í bikarnum þetta árið.
Byrjunarlið ÍBV í leiknum :
Anne - Erna Dögg, Sigga Ása, Suzie R, Elena - Biddý, Fríða, Rachel, Elín Anna, Suzie M - Olga.
Guðrún Soffía og Pálína komu inn fyrir Olgu og Elenu og þá kom Rakel Rut inn fyrir Suzie R.
Mark ÍBV : Bryndís Jóhannesdóttir.
Textinn er fenginn að láni á www.eyjafrettir.is