Fótbolti - Eyjamenn úr fallsætinu eftir góðan sigur á Fram

11.júl.2005  10:14

Tryggvi Kr. Ólafsson skrifar frá Hásteinsvelli

Það voru slæmar aðstæður til að spila knattspyrnu á Hásteinsvelli þegar Eyjamenn fengu Fram í heimsókn í fyrsta leik seinni umferðar Íslandsmótsins, suð-austan rok og rigning og varla hundi í sigandi. Leikmenn létu hins vegar veðrið ekki hafa nein áhrif á sig og spiluðu á köflum ágæta knattspyrnu þrátt fyrir aðstæðurnar.

Eyjamenn hófu leikinn undan vindi og áttu Frammarar oft á tíðum í vök að verjast en þeir náðu hins vegar nokkrum sinnum að spila upp völlinn með því að láta boltann rúlla á milli sín en ógnuðu ekki marki Eyjamanna að ráði. Það voru hins vegar Eyjamenn sem áttu fyrsta færi leiksins þegar Steingrímur komst einn á móti Gunnari í marki Fram, eftir að Ian Jeffs hafði spilað hann frían, en að þessu sinni skaut Steingrímur yfir. Gunnar tók útsparkið en ekki vildi betur til en boltinn kom til baka inn í teiginn fyrir fætur Steingríms sem átti misheppnað skot sem Gunnar varði.

Eyjamenn héldu áfram að sækja að marki Fram enda með vindinn í bakið og átti Ian Jeffs ágætt skot að marki á 22. mínútu sem Gunnar varði vel. Mínútu seinna fengu Eyjamenn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Fram, hægra megin. Atli tók spyrnuna og átti ágætt skot að marki en Gunnar varði með tilþrifum með því að slá boltann yfir.

Eftir um hálftíma leik fengu Eyjamenn hornspyrnu og upp úr henni átti Páll Hjarðar góðan skalla að marki en varnarmaður Fram bjargaði á línu.

Eyjamenn voru þegar þarna var komið búnir að vera meira með boltann en Frammarar beittu skyndisóknum og voru búnir að eiga nokkur skot að marki ÍBV án þess að Birkir lenti í einhverjum teljandi vandræðum með þau.

Það dróg síðan til tíðinda á 36. mínútu þegar Pétur Óskar Sigurðsson fékk góða sendingu inn í vítateig Fram en tveir varnarmenn Fram klemmdu hann á milli sín og féll Pétur við í þessum viðskiptum. Góður dómar leiksins var hins vegar ekki í neinum vafa og dæmdi vítaspyrnu sem Ian Jeffs tók og skoraði af öryggi framhjá Gunnari í marki Fram.

Fátt markvert gerðist eftir þetta það sem eftir lifði hálfleiksins nema hvað Ian Jeffs fékk ágætis tækifæri til að auka forystu Eyjamanna en skaut langt framhjá úr góðu færi.

Staðan í hálfleik 1-0.

Í seinni hálfleik snérist dæmið við því þá voru það Frammarar sem voru meira með boltann enda léku þeir undan sterkum vindi og strax á 50. mínútu varð Birkir að taka á honum stóra sínum þegar hann varði gott skot frá leikmanni Fram í horn. Upp úr horninu átti Ríkharður Daðason góðan skalla að marki en boltinn fór rétt framhjá.

Á 60. mínútu varði Birkir með tilþrifum eftir að leikmenn Fram höfðu spilað frábærlega á milli sín og sýndi Birkir þarna að hann er í fantaformi.

Frammarar héldu áfram að sækja og áttu fjölmargar hornspyrnur að marki ÍBV en þeim tókst ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri og áttu þeir í hinum mestu erfiðleikum með að koma boltanum framhjá góðri vörn Eyjamanna og þegar það tókst var Birkir næsta hindrun sem þeir lentu á.

Hins vegar voru það Eyjamenn sem sköpuðu sér mun hættulegri færi með skyndisóknum sínum og í einni slíkri átti Steingrímur skot í varnarmann og barst boltinn út í teig til Matthaw Platt sem átti lúmskt skot að marki en boltinn hafnaði í stöng og þaðan út í teig þar sem varnarmenn Fram náðu boltanum og hreinsuðu frá.

Á 76. mínútu gerðu Eyjamenn síðan út um leikinn þegar Steingrímur skoraði glæslegt mark eftir góðan undirbúning Bjarna Rúnars. Matthaw Platt vann boltann á miðjunni og sendi á Bjarna Rúnar sem geistist upp hægri kanntinn, sendi lágan bolta fyrir markið þar sem Steingrímur kom á ferðinni, kastaði sér fram og hreinlega stangaði boltann í netið, óverjandi fyrir Gunnar í markinu, enda glæsilega að markinu staðið hjá Eyjamönnum.

Eftir markið sóttu Frammarar hart að marki Eyjamanna en eins og áður náðu þeir ekki að skapa sér nein teljandi færi og komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Eyjamanna. Það voru hins vegar Eyjamenn sem áttu síðasta færi leiksins og kom það á lokamínútunni þegar Matthew Platt komst einn á móti Gunnari en Gunnar varði með góðu úthlaupi.

Lokatölur 2-0.

Það verður að segjast eins og er að það var mikill léttir í herbúðum Eyjamanna eftir að Kristinn Jakobsson, dómari, flautaði leikinn af því með þessum sigri höfðu Eyjamenn sætaskipti við Fram sem núna situr í fallsæti ásamt Þrótti.

Leikurinn var í heild ekki mikið fyrir augað enda erfitt að spila knattspyrnu við þær aðstæður sem voru á Hásteinsvelli í kvöld. Hins vegar voru það Eyjamenn sem áttu auðveldara með að skapa sér færi og því var þessi sigur verðskuldaður. Það er eftitt að taka einstaka leikmenn út því baráttan var til staðar hjá öllum leikmönnum liðsins en það verður að hrósa vörninni og þá sérstaklega Páli Hjarðar sem stjórnaði vörninni eins og herforingi. Þá stóð Birkir sig að vanda vel í markinu en hann ásamt vörninni stóðu af sér allar sóknarlotur Fram í leiknum.

Hjá Fram var Þórhallur Dan traustur í vörninni að vanda og þá var Ríkharður hættulegur en hann átti erfitt uppdráttar þar sem Páll Hjarðar hafði góðar gætur á honum.

Landsbankadeildin:

Hásteinsvöllur sunnudaginn 10. júlí 2005 kl. 19:15.

Lið: ÍBV-Fram

Lokatölur: 2-0

Hálfleikstölur: 1-0

Aðstæður: Völlurinn góður en blautur. 

Veður: Suð-austan rigning og rok, hiti 10-11 stig.

Áhorfendur: 400-500

Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 5

Maður leiksins: Páll Hjarðar Almarsson

Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 7 (Kristinn Jakobsson )


ÍBV

Byrjunarlið

1. Birkir Kristinsson (F)(M)

2. Páll Þorvaldur Hjarðar

6. Andri Ólafsson

7. Atli Jóhannsson

8. Ian David Jeffs

9. Pétur Runólfsson

11. Steingrímur Jóhannesson

14. Bjarni Geir Viðarsson

20. Bjarni Hólm Aðalsteinsson

27. Heimir Snær Guðmundsson

28. Pétur Óskar Sigurðsson

Varamenn

3. Anton Bjarnason

12. Hrafn Davíðsson ( M )

15. Matthew Platt.

16. Bjarni Rúnar Einarsson

18. Andrew Sam

Mörk

37. mín. Iann Jeffs, víti, (1-0)

78. mín. Steingrímur Jóhannesson (2-0)

Skiptingar

46. mín. Bjarni Rúnar Einarsson fyrir Andra Ólafsson

62. mín. Pétur Óskar Sigurðsson fyrir Matthew Platt.

88. mín. Andrew Sam fyrir Steingrím Jóhannesson

Spjöld

Hornspyrnur: 3

Fram

Byrjunarlið

1. Gunnar Sigurðsson (M)

3. Ingvar Þór Ólason

5. Eggert Stefánsson

8. Gunnar Þór Gunnarsson

11. Ríkharður Daðason (F)

15. Hans Mathíesen

17. Vídir Leifsson

18. Ómar Hákonarson

20. Kim Norholt

23. Þórhallur Dan Jóhannsson

27. Kristján Hauksson

Varamenn

12. Tómas Ingason (M)

4. Viðar Guðjónsson

7. Daði Guðmundsson

9. Kristófer Sigurgeirsson

22. Ívar Björnsson

Mörk

Skiptingar

62. mín. Ívar Björnsson fyrir Kim Norhold.

70. mín. Viðar Guðjónsson fyrir Ingvar Þór Ólason.

78. mín. Kristófer Sigurgeirsson fyrir Kristján Hauksson.

Spjöld

37. mín. Ingvar Þór Ólason, gult fyrir brot

71. mín. Kristján Hauksson, gult fyrir brot

Hornspyrnur: 14