Tryggvi Kr. Ólafsson skrifar frá Hásteinsvelli
Það voru vonsviknir áhorfendur sem fóru af Hásteinsvelli í dag þegar Eyjamenn Fylki í heimsókn, nema að sjálfsögðu stuðningsmenn Fylkis. Það var ljóst fyrir leikinn að Eyjamenn yrðu að vinna til að komast frá fallsvæðinu en það tókst ekki í þetta sinn og tapaði ÍBV þarna sínum 7. leik á tímabilinu. Þetta er engan vegin ásættanleg staða og ljóst að það þarf eitthvað að gera til að stappa stálinu í leikmenn ÍBV. Hins vegar geta Fylkismenn verið ánægðir með stigin þrjú sem þeir náðu að hala inn í dag enda komnir nokkuð frá fallsvæðinu með þessum sigri.
Leikurinn fór rólega af stað en á 11. mínútu komst Steingrímur einn inn fyrir vörn Fylkis en skaut í stöng. Steingrímur var óheppinn þarna og var þetta ekki í eina skiptið í leiknum sem lánið lék ekki við Eyjamenn.
Á 14. mínútu átti Páll Hjarðar skot að marki Fylkis eftir hornspyrnu en skotið hafnaði í varnarmanni Fylkis og smaug framhjá stönginni.
Það var eins og Fylkismenn vöknuðu við þetta því þeir komust meira inn í leikinn og á 19. mínútu komst Björgólfur einn inn fyrir vörn Eyjamanna eftir góða sókn en náði ekki að setja boltann framhjá Birki í markinu sem varði frábærlega. Fylkismenn héldu áfram að sækja og á 27. mínútu bjargaði Páll Hjarðar á línu eftir þunga sókn Fylkismanna.
Það dróg síðan til tíðinda á 35. mínútu. Björgóflur fékk boltann fyrir utan teig, vinstra megin, eftir að boltinn hafði gengið manna á milli og smellhitti boltann í fjærhornið, óverjandi fyrir Birki.
Á 40. mínútu var brotið gróflega á Adolfi Sigurjónssyni við vinstra vítateigshorn Fylkismanna en dómarinn taldi ekki um brot að ræða heldur fengu Fylkismenn innkast. Adolf lá eftir enda kom í ljós að hann hafði farið úr axlarlið. Það er með ólíkindum að dómari leiksins skildi ekki sjá brotið því leikmaður Fylkis renndi sér aftan í Adolf þegar hann var að senda boltann fyrir og fór fyrir sendinguna en tók Adolf niður í leiðinni. Klárlega um brot að ræða og verðskuldaði a.m.k. áminningu.
Stuttu síðar fékk Páll Hjarðar að líta gula spjaldið fyrir brot sem var töluvert vægara en brotið á Adolf stuttu áður.
Bjarni Rúnar, sem komið hafði inn fyrir Adolf, átti síðasta orðið í hálfleiknum en skot hans fyrir utan teig fór rétt framhjá Fylkismarkinu. Staðan í hálfleik var því 0-1.
Seinni hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri þ.e. Steingrímur fékk sannkallað dauðafæri en Bjarni í marki Fylkis varði vel skalla hans.
Eyjamenn misstu síðan leikmann útaf með rautt spjald á 58 mínútu þegar Páll Hjarðar fékk sitt annað gula spjald og núna fyrir að fara of hátt með fótinn, án þess þó að snerta mótherja. Stuðningsmenn Eyjamanna voru ekki ánægðir með þessa ákvörðun dómarans og fannst mörgum sem dómarinn hefði hreinlega verið að bíða eftir að Páll bryti af sér þannig að hann gæti rekið hann útaf.
Fylkismenn kláruðu nánast leikinn stuttu síðar þegar Viktor Bjarki skoraði gott mark með skoti fyrir utan teig en færið kom eftir að Fylkismenn höfðu fengið umdeilda aukaspyrnu á miðjum vellinum. Fylkismenn voru fljótir að taka spyrnuna og voru Eyjamenn enn að mótmæla við dómara leiksins þegar Viktor Bjarki lét skotið vaða.
Á 72. mínútu gerðu Eyjamenn harða hríð að marki Fylkis en inn vildi boltinn ekki fara og áttu þeir m.a. skot í þverslá og varnarmann áður en Bjarni í markinu náð boltanum. Var með ólíkindum að sjá þetta og var eins og Eyjamönnum væri fyrirmunað að skora.
Fylkismenn ráku síðan síðasta naglann í kistu Eyjamanna á 88. mínútu en þá skoraði Björgóflur eftir hornspyrnu frá vinstri. Birkir fór út í sendinguna en náði ekki boltanum sem barst út í teig þar sem leikmaður Fylkis var einn og óvaldaður. Hann sendi boltann fyrir markið þar sem Björgólfur lúrði á fjærstöng og átti ekki í vandræðum með að senda boltann í autt markið.
Leikurinn í heild sinni var í sjálfu sér þokkalega leikinn og nokkuð um færi, sérstaklega hjá Eyjamönnum, sem ekki nýttust. Það er eins og Eyjamenn séu dæmdir til að fara niður því það virðist ekkert ganga upp og sjálfstraustið er greinilega mjög lágt þessa stundina. Með smá heppni hefðu Eyjamenn getað unnið leikinn en heppnin var ekki með þeim í dag. Af leikmönnum ÍBV stóðu þeir fyrir sínu Birkir í markinu, Ian Jeffs og Atli.
Fylkismenn nýttu hins vegar sín færi vel og voru vel að sigrinum komnir. Boltinn gekk betur hjá þeim en mótherjunum og þeir virtust eiga auðveldara með að finna samherja. Hjá Fylki stóð Björgólfur uppúr ásamt Bjarna Þórði. Þá var Valur Fannar traustur í vörninni.
Landsbankadeildin:
Hásteinsvöllur laugardaginn 2. júlí 2005 kl. 16:00.
Lið: ÍBV-FYLKIR
Lokatölur: 0-3
Hálfleikstölur: 0-1
Aðstæður: Völlurinn hefur sjaldan verið betri.
Veður: Ágætisveður, austan gola og 11-12 stiga hiti.
Áhorfendur: 250-300
Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 5
Maður leiksins: Ian Jeffs
Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 5 (Erlendur Eiríksson )
ÍBV
Byrjunarlið
1. Birkir Kristinsson (F)(M)
2. Páll Þorvaldur Hjarðar
7. Atli Jóhannsson
8. Ian David Jeffs
9. Pétur Runólfsson
11. Steingrímur Jóhannesson
14. Bjarni Geir Viðarsson
15. Matthew Platt.
17. Adólf Sigurjónsson
20. Bjarni Hólm Aðalsteinsson
27. Heimir Snær Guðmundsson
Varamenn
6. Andri Ólafsson
12. Hrafn Davíðsson ( M )
16. Bjarni Rúnar Einarsson
18. Andrew Sam
28. Pétur Óskar Sigurðsson
Mörk
Skiptingar
40. mín. Bjarni Rúnar Einarsson fyrir Adolf Sigurjónsson
67. mín. Pétur Óskar Sigurðsson fyrir Matthew Platt.
77. mín. Andrew Sam fyrir Bjarna Geir Viðarsson
Spjöld
44. mín. Páll Hjarðar, gult fyrir brot
58. mín. Páll Hjarðar, gult fyrir brot = rautt
89. mín. Pétur Óskar Sigurðsson, gult fyrir brot
Hornspyrnur: 7
Fylkir
Byrjunarlið
1. Bjarni Þórður Halldórsson (M)
3. Guðni Rúnar Helgason
4. Valur Fannar Gíslason
6. Helgi Valur Daníelsson
9. Gunnar Þór Pétursson
10. Viktor Bjarki Arnarsson
21. Eyjólfur Héðinsson
22. Björgólfur Hideaki Takefusa
23. Christian Christiansen
25. Kristján Valdimarsson
28. Jón Björgvin Hermannsson
Varamenn
11. Kjartan Ágúst Breiðdal
12. Jóhann Ólafur Sigurðsson (M)
16. Andrés Már Jóhannesson
24. Albert Brynjar Ingason
27. Agnar Bragi Magnússon
Mörk
35. mín. Björgólfur Takefusa (0-1)
64. mín. Viktor Bjarki Arnarsson (0-2)
88. mín. Björgólfur Takefusa (0-3)
Skiptingar
70. mín. Kjartan Ágúst Breiðtal fyrir Jón Björgvin Hermannsson.
75. mín. Albert Brynjar Ingason fyrir Christian Christiansen.
88. mín. Agnar Bragi Magnússon fyrir Kristján Valdimarsson.
Spjöld
12. mín. Viktor Bjarki Arnarsson, gult fyrir brot
68. mín. Jón Björgvin Hermannsson, gult fyrir brot
Hornspyrnur: 6