Í kvöld mættust lið ÍBV og ÍR í Íslandsmóti 2.flokks kvenna í knattspyrnu. 2.flokkur ÍBV hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðustu misseri eftir góðan árangur árin þar á undan en nú virðist vera að birta til því nokkuð stór hópur stúlkna æfir með flokknum. Það var því eftirvænting fyrir leikinn í kvöld bæði hjá leikmönnum og þjálfurum en þeir Óðinn Sæbjörnsson og Kristján Georgsson eru á sínu fyrsta ári sem þjálfarar 2.flokks.
Leikurinn í kvöld sem fór fram á ÍR-vellinum var sannkallaður markaleikur en alls skoruðu liðin 10 mörk. Fyrsta mark leiksins skoruðu stúlkurnar úr Breiðholtinu en stelpurnar okkar voru ekki lengi að jafna og var þar að verki enska stúlkan Chantelle Parry sem leikur með meistaraflokki en hún er einnig gjaldgeng í 2.flokk. ÍR stúlkur náðu svo aftur forystu og höfðu 2-1 yfir í hálfleik.
Í seinni hálfleik skoruðu stúlkurnar svo hvorki fleiri né færri en 7 mörk. Chantelle Parry skoraði annað mark sitt og jafnaði leikinn í 2-2 og Tanja Tómasdóttir kom ÍBV svo í 3-2 skömmu síðar. ÍR stúlkur náðu að jafna í 3-3 en Chantelle var aftur á ferðinni stuttu seinna og kom ÍBV í 4-3 með sínu þriðja marki í leiknum. Birgitta Rúnarsdóttir bætti svo við fimmta marki ÍBV en ÍR minnkaði muninn jafnharðan í 5-4. Það var svo Thelma Sigurðardóttir sem innsiglaði sigur Eyjastelpna með glæsilegu skallamarki eftir hornspyrnu og 6-4 sigur okkar stúlkna því staðreynd.
Þessi sigur er kærkominn fyrir stelpurnar og á án efa eftir að veita þeim sjálfstraust í baráttunni framundan. Þetta er fyrsti sigur 2.flokks í rúm tvö ár og vonandi verður áframhald á þessu. Það er mikið spunnið í þessar stelpur og ef þær æfa vel, hafa trú á sjálfum sér og berjast eins og ljón í leikjunum þá eru þeim allir vegir færir. Chantelle, Karitas og Tanja T stóðu upp úr sterku liði ÍBV og vonandi munu stelpurnar halda áfram á sigurbraut í næstu leikjum.
Lið ÍBV í kvöld : Mark - Nína. Vörn - Berglind, Sara, Karitas og Anna Kristín. Miðja - Tanja Björg, Þórhidur, Thelma og Hafdís. Sókn - Chantelle og Erla Signý. Tanja T og Birgitta komu svo inn fyrir þær Hafdísi og Erlu Signýju. Þess má geta að fjórar af stelpunum sem spiluðu í kvöld eru ennþá í 3.flokki.