Fótbolti - Tveir sigrar í deildarbikarnum um helgina

11.apr.2005  13:24
Stelpurnar í fótboltanum léku tvo leiki í deildarbikarnum um helgina. Fyrir leikina voru þær með 3 stig eftir tvo leiki en ÍBV á titil að verja í þessari keppni eftir að hafa hampað titlinum í fyrra með sigri á Val í úrslitaleik.
 
Á laugardaginn mættu stelpurnar sterku liði Blika. Búist var við spennandi leik enda hafa Blikar bætt við sig mannskap eftir að hafa verið í lægð undanfarin ár. Þrjár landsliðskonur hafa gengið til liðs við liðið þ.á.m. Þóra Helgadóttir landsliðsmarkvörður. ÍBV kom ákveðið til leiks og á 9.mínútu kom Bryndís Jóhannesdóttir stelpunum okkar yfir eftir að Blikar höfðu tapað boltanum á miðjunni. Á 25.mínútu kom markadrottningin Olga Færseth ÍBV svo í 2-0 með góðu skoti eftir fyrirgjöf. Eftir mörkin fengu stelpurnar færi án þess þó að ná að mæta við marki. Aftur á móti náðu Blikar að minnka muninn rétt fyrir leikhlé með góðu skallamarki.
Í seinni hálfleik höfðu stelpurnar okkar yfirhöndina og fengu hættulegasta færi hálfleiksins þegar Bryndís slapp ein í gegn en Þóra markvörður bjargaði glæsilega í horn. Blikar pressuðu svo þónokkuð í lok leiksins en Nína Björk Gísladóttir í markinu átti ekki í vandræðum með þau skot sem hittu rammann og lokatölur því 2-1 og góður sigur á Kópavogsstúlkum staðreynd.
 
Á sunnudaginn léku stelpurnar svo við lið FH í Reykjaneshöllinni. Þar var búist við sigri Eyjastelpna enda FH liðið verið í neðri hluta deildarinnar undanfarin ár. Lokatölur í þeim leik urðu 4-1 og mörkin skoruðu Olga (2 mörk), Hólmfríður og Bryndís. ÍBV liðið náði sér þar með í 6 stig í þessum tveimur leikjum og er því komið upp í 2.sæti riðilsins með 9 stig, en Valur er í því efsta einnig með 9 stig en þær eiga leik til góða á ÍBV.
 
Síðasti leikur stelpnanna í riðlinum er svo gegn KR þann 23.apríl á KR-gervigrasinu. Knattspyrnuráð er á fullu þessa dagana að vinna í því að styrkja hópinn enn frekar fyrir sumarið, og munu þau mál vonandi skýrast fljótlega.