Á aðalfundi félagsins urðu miklar umræður um bága vetraraðstöðu til knattspyrnuiðkunar. Fundarmenn voru sammála um að aðkoma bæjaryfirvalda að málinu væri nauðsynleg. Einar Friðþjófsson setti fram ályktun sem fundurinn samþykkti án mótatkvæða, hún birtist hér eftirfarandi.
Vestmannaeyjum 25.02.2005.
Ályktun til Bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
ÍBV-íþróttafélag fer þess á leit við Bæjarstjórn Vestmannaeyja að hún hefji tafarlaust undirbúning og framkvæmdir með það að markmið í huga að bæta úr bráðnauðsynlegri aðstöðu knattspyrnunar til æfinga að vetrarlagi. Aðstaða sú er boðið er upp á í dag er fyrir neðan allar hellur. Verði ekkert aðhafst, verður þess ekki langt að bíða að við drögumst langt afturúr á knattspyrnusviðinu, miðað við þau félög sem við erum að keppa við í dag.
Greinargerð
Knattspyrnunni eru í dag mjög þröngar skorður settar. Hver flokkur fær þrjá tíma í viku í íþróttahúsinu, í annan tíma er henni ætlað að æfa á malarvellinum sem er fyrir löngu orðinn ónýtur og kannski ekki síst, jafnvel hættulegur. ÍBV-íþróttafélag skilur vel að áhugi barna á knattspyrnuiðkun verði minni við þessar aðstæður og iðkenndur snúi sér að öðrum hugarefnum. Sýnist okkur að sú þróun aukist hröðum skrefum. ÍBV-íþróttafélag telur að eina raunhæfa leiðin sé að bæta vetraraðstöðuna til mikilla muna eins og svo mörg bæjarfélög sem við erum að keppa við í dag eru að gera og mörg hver hafa lokið við.
ÍBV-íþróttafélag