Fótbolti - Fín frammistaða ÍBV-stráka í Reykjaneshöllinni í 1-1 jafntefli gegn Fylki

20.feb.2005  19:36
Sæþór Jóh með sitt fyrsta mark
 
Fótboltastrákarnir okkar eru farnir að reima á sig skóna og í dag kl. 13 léku þeir í Reykjaneshöllinni gegn Fylkismönnum.  Leikurinn var í heildina jafn, en Fylkismenn voru meira með boltann, því Eyjamenn héldi sig frekar aftarlega á vellinum og treystu meir á skyndisóknir. 
Byrjunarlið ÍBV var þannig skipað (Skiptingar í sviga):
Hrafn
Adólf, Einar Hlöðver, Bjarni Hólm, Bjarni Geir
Magnús Már, Jeffsy, Andri, Pétur Run., Atli (Bjarni Rúnar)
Steingrímur (Sæþór)
 
Í fyrri hálfleik ógnaði ÍBV ekki Fylki neitt verulega ef undan eru skilin 2 hreint ágæt færi Steingríms Jóhannessonar sem virðist nú vera að ná sér af meiðslum þeim er héldu honum fjarri liðinu í fyrrasmar að mestu.  Varnarleikurinn stóð af sér margar atlögur fylkismanna og ekki skemmdi fyrir góð frammistaða Hrafns markvarðar sem bjargaði nokkrum sinum mjög vel. 
Í þeim síðari bættu Eyjamenn nokkuð í sóknarleikinn og voru sóknarloturnar hættulegri en í þeim fyrri á sama tíma og Fylkismenn gátu ekki fundið leiðina í mark ÍBV.  Athygli vakti innkoma Sæþórs Jóhannessonar, yngri bróður Steingríms, sem er hreint eldfljótur og ef einhver hélt að verk varnarmanna Fylkis yrði minni við að Steingrímur færi útaf í stað Sæþórs, var það hinn mesti misskilningur.  Hann var mjög ógnandi og þegar rúm mínúta lifði af leiknum skoraði Sæþór skemmtilegt mark er sending kom frá hægri að nærstöng og sneiddi Sæþór boltann í ofarlega í nærhornið.  Vissulega kærkomið að sjá til Sæþórs.   Hinsvegar var ÍBV ekki lengi yfir því Fylkismenn jöfnuðu á lokasekúndunum Eyjamönnum til mikillar armæðu.  Hinsvegar má segja að úrslitin 1-1 hafi verið sanngjörn þegar á heildina er litið.
 
Leikurinn var vel leikinn en hann var stundum nokkuð harður og fékk einn leikmaður í hvoru liði að líta rauða spjaldið án aðvörunar, en hjá ÍBV var það Einar Hlöðver Sigurðsson sem fékk beint rautt fyrir olnbogaskot.  Höfðu þeir Einar og Bjarni Hólm verið eins og kóngar í ríki sínu í miðri vörninni fram að þessu.  Andri Ólafsson færði sig aftur í vörnina eins og við sáum svo oft síðasta sumar.  Adólf Sigurjónsson spilaði allan leikinn í hægri bakverði og er alveg ljóst að þar er efnilegur drengur á ferð og stóð sig hreint príðilega í dag gegn erfiðum andstæðingum.  Reynsla Péturs, Runólfs, Ian Jeffs, Andra og Atla á miðjunni var þung á metunum í þessum leik og fór svona allra mesti hrollurinn úr manni eftir að hafa misst Bjarnólf frá félaginu.  Magnús Már Lúðvíksson var og í framlínunni og hann er alltaf líklegur þegar hann fær boltann og átti hann hreint ágætan leik.  Hér á eftir að minnast á Bjarna Geir Viðarsson sem lék í vinstri bakverði og er þetta leikmaður sem er svona týpískt að maður gleymi að segja frá, en Bjarni gefur alltaf 100% í leikina og engin undantekning var á því í dag gegn þeim appelsínugulu.  Bjarni Rúnar Einarsson kom inná fljótlega í síðari hálfleik fyrir Atla Jóhannsson og var þetta hans fyrsti leikur með ÍBV í vetur og náði hann ekki að setja svip sinn á leikinn en féll vel inn í baráttuglatt liðið í dag.
 
Ég held að rétt sé að taka ofan fyrir strákunum og eru stuðningsmenn hvattir til að láta sjá sig á næstu leikjum í deildarbikarnum.  Það var gaman að sjá til ÍBV í dag !
 
.......bara ef þeir hefðu haldið hreinu.........
 
menn hvíla lúin bein í hálfleik
 
 
Þessir spekingar létu sig ekki vanta í Reykjaneshöllina:
Lúðvík, faðir Magnúsar Más, Maggi Gylfa
og Guðni Kjartansson, landsliðsþjálfari U-19