Guðlaugur Baldursson, þjálfari m.fl. karla, er farinn að líta til komandi átaka í boltanum og nú um næstu helgi hefst keppni í Deildarbikarkeppni KSÍ. Fyrsti leikurinn verður einmitt í Reykjaneshöllinni er liðið leikur við Fylki á sunnudag kl. 13. Magnús Gylfason fyrrverandi þjálfari fékk reglulega á sig hinar ýmsu spurningar og nú er komið að Guðlaugi að taka við boltanum og hér kemur svona fyrsti skammturinn eftir að hann kom í stutt spjall í haust í gömlu síðunni okkar.
Þá fer að styttast í annan endann á vetrinum. Í hvernig standi eru strákarnir núna þegar deildarbikarinn er að hefjast ?
Ástandið á mannskapnum er alveg þokkalegt þó hafa meiðsli og veikindi plagað okkur aðeins síðustu vikurnar.
Gerið þið ráð fyrir frekari breytingum á leikmannahópnum ?
Leikmannahópurinn á eftir að taka einhverjum breytingum á næstu misserum. Við náum vonandi að klára málin við enska leikmenn á allra næstu dögum en hinn íslenski markaður virðist vera mjög erfiður viðureignar.
Í hvaða stöðum vantar þá helst leikmenn ef svo er ?
Við höfum fyrst og fremst verið að reyna að finna okkur leikmenn sem geta spilað þær stöður sem við misstum leikmenn úr eftir sumarið. Þessir leikmenn voru varnar-, miðju-, og sóknarmenn. Við höfum fengið Bjarna Hólm sem er varnar- og miðjumaður og erum að reyna að klófesta erlenda miðju- og sóknarmenn.
Hvernig hefur aðstaða til æfinga verið í vetur, bæði í Eyjum og í bænum ?
Æfingaaðstaðan í bænum hefur verið nokkuð góð. Við höfum æft að jafnaði 5 sinnum í viku, verið 3svar í fótbolta og hlaupið og lyft 2svar sinnum. Æfingaleikir hafa síðan komið þessu til viðbótar.
Huginn hefur stjórnað æfingunum úti í Eyjum þar sem strákarnir hafa verið í áþekku prógrammi og þeir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu.
Hvernig verður lagt upp í deildarbikarkeppnina, þ.e. verður ungu strákunum gefinn séns ?
Deildarbikarinn verður notaður til þess að sjá og skoða þann hóp sem við höfum úr að moða. Flestir þessara stráka sem munu spila leikina í deildarbikarnum eru ungir og ég mun síðan skoða í samráði við Hugin þá stráka sem enn eru í 2. flokki.
Hefurðu sett liðinu einhver sérstök markmið fyrir komandi átök ?
Ef þú ert að spyrja um árangur í deild, bikar og Evrópukeppni þá þarf ég að fá betri heildarmynd á þann hóp sem við verðum með í höndunum þegar líður að sumri til þess að geta gefið út þessháttar markmið.
Mitt markmið sem þjálfara er að gera hvern leikmann að betri leikmanni en hann er í dag og búa til heilsteypt og gott ÍBV-lið.
En hvað varðar þig sjálfan. Hvernig ertu stemmdur að fara að stjórna liði í efstu deild í fyrsta sinn ? Ég er fullur tilhlökkunar og bíð spenntur eftir fyrsta leik.
Að öðru, þá langar okkur í mjög nauðsynlegar upplýsingar.....
Með hvaða liði heldurðu í enska boltanum ?
Ég held með ARSENAL
Hver er þinn uppáhaldsleikmaður þar ?
Hinn rólegi og geðþekki miðjumaður Patrick Vieira
Er Gísli Hjartar búinnn að reyna að fá þig í sístækkandi aðdáendaklúbb Brighton and Hove Albion ? Eftir að hafa fengið hlusta á lofræður Gísla um Brighton og að sjá gullfallega mynd af Steve Foster með ennisbandið góða upp á vegg bakvið páfagaukinn hans Gísla þá tel ég meiri líkur en minni að ég gerist þriðji meðlimur þessa athyglisverða aðdáendaklúbbs J
Hvaða áhugamál hefurðu svo fyrir utan fótboltann ?
Fótboltinn á nú eiginlega hug minn allan, ekki golf allavega. Ég er mikill fjölskyldumaður, ef maður getur sagt að fjölskyldan sé áhugamál, líður best á góðum stundum í faðmi hennar eða í góðu grilli.