Þjóðhátíðin í Eyjum 2024 meðal þeirra stærstu í sögunni

12.ágú.2024  09:50

Þjóðhátíðin í Eyjum 2024 tókst vel að mati þjóðhátíðarnefndar en veðurguðirnir létu hafa fyrir sér. Veðrið var mikil áskorun og muna elstu menn ekki eftir jafn erfiðu veðri alla dagana á Þjóðhátíð en hátíðargestir létu það ekki of mikið á sig fá. Þjóðhátíðin í ár var ein af stærstu þjóðhátíðum sem haldnar hafa verið í Eyjum en 150 ár eru síðan fyrsta hátíðin var haldin.

Ekki voru það einungis gestir af fastalandinu sem fjölgaði í ár heldur bættust hátt í 40 hústjöld í tjaldborg heimamanna. Framkvæmd hátíðarinnar tókst vel en það reyndi vel á alla innviði þar og voru gestir hátíðarinnar nær allir til mikillar fyrirmyndar. Aldurssamsetning gesta var ákjósanleg og eins og ávallt koma fjölskyldur saman á hátíðina. Unglingar og ungmenni skemmtu sér í fylgd foreldra eða forráðamanna. Eitthvað var um slys og tognanir sem meðhöndlað var í sjúkraskýli í Herjólfsdal.

Þjóðhátíðarnefnd hefur lagt sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi og að þessu sinni voru um 100 manns við öryggisgæslu í Herjólfsdal þegar mest var auk læknis og hjúkrunarfræðinga. Þá var starfandi áfallateymi í dalnum sem stýrt var af fagmenntuðu starfsfólki.

Þjóðhátíðarnefnd er gríðarlega ánægð með þann mikla samhug sem ríkti gegn hvers kyns ofbeldi á hátíðinni en lögreglan tilkynnti að þetta væri ein sú rólegasta að þeirra mati. Við munum halda áfram þeirri vinnu við að finna leiðir til að efla enn frekar öryggi fólks á Þjóðhátíð.

Eins og ávallt eru margar hendur sem koma að þjóðhátíð en auk þeirra fjölmörgu tónlistarmanna sem komu fram var fjöldi tæknifólks og um 200 sjálfboðaliðar sem lögðu þjóðhátíðarnefnd lið við framkvæmd hátíðarinnar. Þjóðhátíðarnefnd þakkar öllu þessu góða fólki fyrir vel unnin störf á Þjóðhátíð. Hreinsun Herjólfsdals gekk vel og var henni að mestu lokið á mánudagskvöld. Brekkan í Dalnum lét á sjá en er strax farin að líta betur út og mun grænka fljótlega á ný.

Þjóðhátíðarnefnd þakkar fyrir sig, sjáumst í dalnum á þjóðhátíð 2025.