Icewear heldur hita á fólkinu í dalnum

11.jún.2024  11:15
ICEWEAR HELDUR HITA Á FÓLKINU Í DALNUM
Icewear verður einn af aðalstyrktaraðilum Þjóðhátíðar árin 2024 og 2025 og framleiðir fatnað og annan varning sem er sérmerktur hátíðinni og verður seldur í Dalnum.
Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og ég er viss um að vörurnar frá þessu rótgróna íslenska fyrirtæki eiga eftir að setja skemmtilegan svip á Dalinn og halda hita á fólki þegar á reynir, segir Jónas Guðbjörn Jónsson formaður Þjóðhátíðarnefndar ÍBV. „Við erum líka þakklát fyrir stuðninginn sem í þessu felst en Þjóðhátíð er auðvitað mjög mikilvæg fjáröflun fyrir allt íþróttastarf hér í Eyjum.
Heiðar Þór Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Icewear, fagnar samkomulaginu sömuleiðis. „Við hjá Icewear erum virkilega stolt af þessu samstarfi sem er að hefjast. Hátíðin er langstærsta útihátíð sem haldin er á Íslandi ár hvert og verður 150 ára í ár. Einnig er um að ræða eitt sterkasta vörumerki sem við Íslendingar þekkjum og við hlökkum til að sýna gestunum í Dalnum hvað við höfum upp á að bjóða en við erum þegar byrjuð að framleiða föt og fleira sem verður opinber varningur Þjóðhátíðar og þetta mun fullkomna hátíðina fyrir marga, enda veit enginn hvernig viðrar og alltaf gott að vera vel búinn.
Við hlökkum til að byrja að kynna þetta allt saman til sölu á næstu vikum í vefversluninni okkar og svo auðvitað í Dalnum alla Þjóðhátíð og fólk mun þannig eignast dýrmæta minjagripi um að hafa verið á staðnum á 150 ára afmæli Þjóðhátíðar.
Að sögn Heiðars eru einnig uppi hugmyndir um að bjóða upp á skemmtilega dagskrá við verslun Icewear í Eyjum þar sem gestir og gangandi geta notið ljúfra tóna og verða mögulega kvaddir með góðri gjöf. „Það eru í raun bara forréttindi að fá að vera með í þessum einstaka viðburði sem ÍBV hefur skapað ásamt sínum samstarfsaðilum og við erum stolt af því að vera komin í þann hóp með Ölgerðinni og fleiri góðum fyrirtækjum. Maður finnur að flestir Íslendingar vilja upplifa þessa Eyjatöfra og einstöku náttúru í Dalnum einhvern tímann á lífsleiðinni.“ bætir Heiðar við.
„Við hjá Icewear ætlum að gera þetta vel og sjáum fram á spennandi samstarf. Þarna koma saman tvö sterk og rótgróin vörumerki sem Þjóðhátíð og Icewear eru og við erum alveg sannfærð um að út úr því komi eitthvað mjög mjög skemtilegt.“