Kæru Þjóðhátíðargestir
Við lifum nú á fordæmalausum og krefjandi tímum. Þjóðhátíðarnefnd ásamt ótalmörgum sjálfboðaliðum hafa allt fram til dagsins í dag þorað að trúa því og unnið að því hörðum höndum að halda Þjóðhátíð í Herjólfsdal í lok sumars. Í dag er enn óljóst hversu lengi samkomubann og fjöldatakmarkanir munu gilda en í ljósi þeirra upplýsinga sem Ríkisstjórnin hefur nú kynnt mun þessi vinna við undirbúning hátíðarinnar 2020 halda áfram, auk vinnu við ráðstafanir komi til þess að halda verði hátíðina í breyttri mynd. Eins og staðan er í dag vonumst við þó til að geta haldið Þjóðhátíð fyrstu helgina í ágúst.
Að því sögðu er rétt að það komi skýrt fram að öryggi gesta okkar, listamanna, starfsmanna og sjálfboðaliða er þó vissulega forgangsatriði okkar við undirbúning hátíðarinnar og munum við að sjálfsögðu vinna náið með almannavörnum og fara að þeirra tilmælum í öllu. Við munum halda gestum okkar upplýstum eftir því sem okkur berast upplýsingar sem haft geta áhrif á hátíðina.
Hlíðum skilaboðum stjórnvalda, verum heima, þvoum okkur um hendurnar, höldum fjarlægð og hugsum vel um okkur sjálf og hvort annað.
Þrátt fyrir böl og alheimsstríð, þá verður haldin Þjóðhátíð!
Fyrir hönd ÍBV og Þjóðhátíðarnefndar
Hörður Orri Grettisson