Yngri flokkar - 10 leikmenn frá ÍBV í landsliðsverkefnum

04.júl.2018  09:02

Það er mikið um að vera hjá unga landsliðsfólkinu okkar.

 

Sandra Erlingsdóttir er með U-20 ára landsliðinu í handbolta á HM í Ungverjalandi ásamt Hrafnhildi Skúladóttur þjálfara liðsins. Þær hafa spilað tvo leiki, fyrri leikurinn á móti Suður-Kóreu endaði með jafntefli 29-29 og í gær unnu þær Slóveníu 24-22. Næsti leikur er svo í fyrramálið á móti firnasterku liði Rússa.

 

Andrea Gunnlaugsdóttir, Bríet Ómarsdóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og Linda Björk Brynjarsdóttir eru með U-16 ára landsliðinu í handbolta á European Open í Gautaborg. Þær kepptu fjóra leiki og enduðu í 3 sæti í riðlinum sem þýðir að þær fara áfram í milliriðil og mæta þar Rússlandi, Slóveníu og Eistlandi.

 

Clara Sigurðardóttir er með U-16 ára landsliðinu í fótbolta á Norðurlandamótinu í Noregi. Þær töpuðu fyrsta leiknum á móti Svíþjóð 2-0, annar leikur liðsins er í dag á móti Þýskalandi.

 

Ágúst Emil Grétarsson, Daníel Örn Griffin, Elliði Snær Viðarsson og Friðrik Hólm Jónsson eru á leiðinni til Frakklands með U-20 ára landsliðinu í handbolta að spila æfingaleiki við Frakka 5.-8. júlí. Eftir þessa leiki verður valinn 16 manna hópur til að taka þátt í lokakeppni Evrópumeistaramótsins sem fer fram í Celje í Slóveníu 18.-30. júlí.

 

ÍBV óskar þessum ungu og efnilegu leikmönnum innilega til hamingju með árangurinn.