Fyrir framlag til íþrótta árið 2017
Sigríður Lára Garðarsdóttir leikmaður ÍBV og kvennalandsliðsins í knattspyrnu fékk á dögunum Fréttapýramída Eyjafrétta fyrir framlag sitt til íþrótta í Vestmannaeyjum.
Á vef Eyjafrétta segir:
Framlag til íþrótta árið 2017
Sigríður Lára Garðarsdóttir hóf að æfa knattspyrnu með ÍBV fimm ára gömul og hefur hún leikið með félaginu allar götur síðan. Snemma komu hæfileikar og metnaður Sigríðar Láru í ljós en hún lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki einungis 15 ára gömul, en í dag, tæpum tíu árum síðar, eru leikirnir orðnir 148.
Sigríður Lára hefur sömuleiðis látið að sér kveða með yngri landsliðum Íslands og núna síðast fylgdumst með henni spila með A-landsliðinu, en hún var til að mynda í byrjunarliði liðsins í lokakeppni EM síðasta sumar.
En umfram allt er Sigríður Lára góð fyrirmynd, innan sem utan vallar og er vel að því komin að hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþrótta árið 2017.
ÍBV óskar Sísí Láru innilega til hamingju!