Handboltinn hlaut Fréttapýramídann, Heimir Hallgríms annar Eyjamanna ársins

19.jan.2016  14:33

Í hádeginu í dag veitti fyrirtækið Eyjasýn Fréttapýramída til þeirra sem sköruðu fram úr á árinu 2015. Handknattleiksdeild ÍBV íþróttafélags hlaut Fréttapýramídann fyrir framlag sitt til íþrótta í Vestmannaeyjum. En árangur í handboltanum hefur verið framúrskarandi allt frá yngri flokkum og uppí meistaraflokka félagsins, auk þess sem margir leikmenn hafa leikið með landsliðum Íslands. Einnig hlaut hinn góðkunni landsliðsþjálfari og fyrrum þjálfari ÍBV Heimir Hallgrímsson Fréttapýramída sem annar af Eyjamönnum ársins. Heimir er eins og flestir kannast við núverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu og hefur náð frábærum árangri með liðið sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM er fram fer í Frakklandi í sumar.