Bikarmeistarahelgin

02.mar.2015  16:11

Tveir bikartitlar til Eyja

Eins og all flestir vita þá var Coca cola bikarveisla um helgina í Laugardalshöllinni. ÍBV átti tvö meistaraflokkslið í undanúrslitum sem spiluðu sína leiki fyrir helgi en einnig átti félagið tvö lið í úrslitum yngri flokka.  

Meistaraflokkur kvenna byrjaði þessa maraþon helgi á fimmtudag þegar þær mættu feiknarsterkum Gróttustelpun en leikurinn endaði 28-34 Gróttu í vil. Stelpurnar okkar áttu mjög góðan leik en markahæstar voru Ester Óskarsdóttir og Elín Anna Baldursdóttir með 6 mörk og vörðu markmenn ÍBV liðsins 10 bolta en í markinu stóðu Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir og Erla Rós Sigmarsdóttir.

Meistaraflokkur karla lék á föstudagskvöld við Hauka og var sá leikur mjög kaflaskiptur. En sem betur fer settu Eyjamenn í lás í stöðunni 12:18 og unnu leikinn 23:21. Markahæstir voru Agnar Smári Jónsson með 6 mörk og Theodór Sigurbjörnsson með 5. Markmenn félagsins vörðu 10 bolta en það voru þeir Kolbeinn Arnarson og Henrik Eidsvag. Með sigrinum tryggðu strákarnir sér leik um bikarmeistaratitilinn.

Meistaraflokkur kala lék svo aftur á laugardag en þá mættu þeir FH í úrslitaleik um Coca Cola bikarinn. Sá leikur endaði 22:23 ÍBV í vil. Markahæstu leikmenn ÍBV voru Einar Sverrisson, Agnar Smári Jónsson, Theodór Sigurbjörnsson og Andri Heimir Friðriksson allri með 4 mörk. Í markinu varði Kolbeinn Arnarson 19 bolta.

Á sunnudag mætti 3. flokkur karla liði Vals og endaði leikurinn með stórsigri Valsmanna 32:22. Markahæstu menn voru Hákon Daði Styrmisson með 12 mörk og Nökkvi Dan Elliðason með 4 mörk. Andri Ísak Sigfússon varði 15 bolta.

Á sunnudag mættu einnig 3. flokkur kvenna liði Selfoss og endaði sá skemmtilegi leikur með sigri ÍBV 24-18. Markahæstar hjá ÍBV voru Sóley Haraldsdóttir með 12 mörk og Díana Dögg Magnúsdóttir með 4 mörk. Erla Rós Sigmarsdóttir varði 9 bolta. Sóley Haraldsdóttir var svo útnefnd maður leiksins.

Af fimm leikjum unnum við þrjá leiki og tvo titla af þeim fjórum sem voru mögulegir fyrir helgi. Árangur félagsins var því glæsilegur en ÍBV og Valur voru einu félögun sem unnu tvo bikarmeistaratitla um helgina. HSÍ og Coca Cola eiga hrós skilið fyrir frábæra umgjörð og allir þeir fjölmörgu leikmenn og þjálfarar sem léku í Laugardalshöllinni voru félögum sínum til sóma.

Ekki er hægt að tala um árangur ÍBV um helgina öðruvísi en að þakka fyrir frábæran stuðning en félagið hefur fengið mikið hrós fyrir frábæra stuðningsmenn sína. Það var gaman að sjá á úrslitaleikjum félagsins að pallarnir voru þétt setnir og mikill söngur og gleði.