Almennt er litið á að árangur, í víðri merkingu þess orðs, byggi á einstaklingsbundnum þáttum. Að einstaklingar búi yfir ákveðnum eiginleikum sem gera þeim kleift að ná árangri á ákveðnu sviði. Mun minna hefur verið fjallað um hvernig hin félagslega umgjörð mótar einstaklinga og hópa og getur skapað forsendur fyrir árangri eða jafnvel dregið úr árangri. Í erindinu verður fjallað um hlutverk foreldra, þjálfara og hins stærra félagslega umhverfis fyrir árangur í íþróttum, sem og á öðrum sviðum.
Viðar hefur sinnt verkefnum sem ráðgjafi fyrir íþróttafélög, fyrirtæki og stofnanir frá árinu 2001. Frá árinu 2003 starfaði hann sem lektor við Kennaraháskóla Íslands og síðar við Háskólann í Reykjavík þar sem hann var m.a. sviðsstjóri íþróttafræðasviðs. Viðar hefur sinnt kennslu og rannsóknum í félagsfræði, íþróttafélagsfræði og íþróttasálfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Hann er með doktorspróf í félagsfræði með sérstaka áherslu á félagsfræði árangurs (sociology of excellence).