Kantmaðurinn knái Vesna Smiljkovic mun leika áfram með ÍBV. Þetta staðfesti hún í gær. Vesna sem var af mörgum talin besti leikmaður liðsins í fyrra heldur í dag uppá 30 ára afmæli sitt.
Þetta eru góðar fréttir fyrir kvennaknattspyrnuna og því ljóst að bæði Vesna og Shaneka verða áfram með Kristínu Ernu í framlínu ÍBV í sumar.
Miklar breytingar verða á leikmannahóp ÍBV í sumar. Stjórn liðsins ákvað að semja ekki áfram við þær Dönku Podovac og Julie Nelson en stjórn liðsins leitar af leikmönnum til að fylla þeirra skarð.
Þá hverfa á braut þær Elínborg Ingvarsdóttir, Andrea Ýr Gústavsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og líklegt þykir að Anna Þórunn Guðmundsdóttir leiki með Grindavík í sumar. Stjórn kvennaknattspyrnunnar hefur ákveðið að ungir leikmenn liðsins fylli skörð þessara leikmanna.
Það verður því fróðlegt að sjá hvernig kvennaliði félagsins vegnar í sumar eftir frábæran árangur tveggja síðustu ára.
Við óskum Vesnu innilega til hamingju með daginn.
Áfram ÍBV.