Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í gær lá fyrir samkomulag við ÍBV íþróttafélag um gæðaeflingu íþróttastarfs ÍBV íþróttafélags og Vestmannaeyjabæjar. Forráðamenn ÍBV íþróttafélags og Vestmannaeyjabæjar hafa á seinustu mánuðum átt í miklum samskiptum um sameiginleg hagsmunamál er tengjast rekstri ÍBV íþróttafélags.
Viðræður þessar hafa verið leiddar af Tryggva Má Sæmundssyni (framkvæmdastjóra ÍBV), Jóhanni Péturssyni (formanni ÍBV íþróttafélags), Arnsteini Jóhannessyni (Íþróttafulltrúa Vestmannaeyjabæjar), Elliða Vignissyni (bæjarstjóra), Jóni Péturssyni (framkvæmdastjóra) og Þór Vilhjálmssyni (formanni ÍBV héraðssambands). Breytingar á rekstri íþróttavallar og Týssheimilis hafa blandast inn í þær viðræður og verkefnið því ærið.
Viðræður þessar hafa fyrst og fremst farið fram undir formerkjum þess mikila árangurs sem ÍBV íþróttafélag hefur náð í eflingu gæðastarfs í íþrótta- uppeldis- og forvarnarstarfi í Vestmannaeyjum og einlægum vilja til að vernda og hlúa að því starfi. Sérstaklega hefur verið horft til aukinnar þjónustu við börn og ungmenni á skólaaldri svo sem:
i. Íþróttaakademíu ÍBV íþróttafélags og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.
ii. Íþróttaakademíu ÍBV íþróttafélags og Grunnskóla Vestmannaeyja.
iii. ÍBV gegn einelti
iv. ÍBV Fyrirmyndafélag ÍSÍ
Auk þessara stóru verkefna hefur ÍBV aukið kröfur sínar til þjálfara og annarra sem vinna með börnum og unglingum. Lögð er höfuð áhersla á menntun og reynslu þjálfara auk þess sem haft er stíft gæðaeftirlit með starfi allra sem koma að vinnu með börnum og ungmennum.
Á þessum grundvelli hafa ÍBV íþróttafélag og Vestmannaeyjabær ákveðið að gera með sér samkomulag sem gerir ráð fyrir eftirfarandi:
i. ÍBV heldur áfram rekstri valla í eigu Vestmannaeyjabæjar.
ii. Vestmannaeyjabær tekur yfir rekstur Týssheimilis.
iii. Vestmannaeyjabær mun veita ÍBV sérstakan styrk til viðhalds og eflingu tt. gæðaverkefna í barna- og unglingastarfi.
iv. Vestmannaeyjabær og ÍBV íþróttafélag munu í sameiningu skipa þriggja manna starfshóp til að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu.
ÍBV-íþróttafélag er afar stolt af samkomulagi þessu og er þetta mikil viðurkenning á því uppbyggingarstarfi sem unnið hefur verið í barna- og unglingastarfi félagsins á síðustu árum.