Nú árið er liðið...

18.jan.2013  07:44

Annáll ársins hjá ÍBV-íþróttafélagi

Þrettándinn
Fyrsta uppákoma hvers árs hjá ÍBV er hinn sívinsæla Þrettándagleði. Hátíðahöldin eru í föstum skorðum þó alltaf sé verið að reyna að laga til smáatriðin til að gera þetta sem skemmtilegast fyrir alla fjölskylduna. Þrettándagleði ÍBV er ekki eingöngu lokapunktur jólanna heldur líka einskonar þakkarhátíð félagsins til bæjarbúa fyrir liðið ár. Þrettándagleðin hefur á undanförnum árum verið færð að helgi til þess að fleiri fái að njóta og hefur sú tilfærsla mælst vel fyrir hjá miklum meirihluta fólks.
 
Handboltinn
Handboltinn var á fullum snúningi í byrjun árs líkt og vant er. Þar er starfið blómlegt og er mikil uppbygging í gangi hjá meistaraflokksráðinu. Kvennaliðið lék í efstu deild og enduðu þær í þriðja sæti í deildinni og léku til úrslita í Eimskipsbikarnum en mættu þar ofjörlum sínum í Val. Frábær árangur, engu að síður. Meistaraflokkur karla var sem fyrr að berjast við að komast upp í úrvalsdeild en það lukkaðist ekki í vor þrátt fyrir fljúgandi start. Nú hinsvegar stefna þeir ótrauðir þangað og verður gaman að fylgjast með liðinu á næstu vikum og mánuðum. Yngri flokkarnir í handboltanum hafa einnig verið að sækja í sig veðrið og það sem mestu skiptir þá hefur verið fjölgun á iðkendum þar undanfarin ár. Það er mjög mikilvægt að við virkjum sem flest börn til að vera virk í íþróttum.

Knattspyrnan
Knattspyrnuvertíðin hófst líkt og vant er í byrjun maí. Bæði kvenna- og karla-liðin léku í úrvalsdeildum. Stúlkurnar náðu enn að bæta árangur sinn og eru nú næst besta lið landsins. Glæsilegur árangur hjá stelpunum og verður fróðlegt að fylgjast með þessum mikla efnivið sem þarna leynist næstu árin. Strákarnir náðu því sæti sem stefnan var sett á fyrir tímabil – þriðja sætinu sem gefur jú sæti í Evrópudeildinni í ár. Góður árangur þar og verður spennandi að fylgjast með liðinu næsta sumar þar sem að Hermann Hreiðarsson er að þreyta frumraun sína á sviði þjálfunar. Yngri flokkarnir í knattspyrnu náðu góðum árangri í sumar. Árangurinn var það góður að aldrei fyrr frá sameiningu hafa jafn margir flokkar komist í úrslitakeppni og nú. Þá er einnig vert að benda á þá staðreynd að miklu hefur verið kostað til hjá félaginu í yngri flokka starfið hjá báðum greinum. Mjög hæfir þjálfarar eru á öllum vígstöðvum auk þess sem búið hefur verið vel að börnunum í ferðalögum. Þá má nefna í þessu samhengi báðar akademíurnar sem settar hafa verið á laggirnar og skila þær mjög eftirtektarverðum árangri. Ekki má svo gleyma því að félagið varð á árinu Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Það er gæðastimpill sem félög fá ef þau standast skilyrði um faglegt starf og góða umgjörð.

Mótin
Öll mótin voru á sínum stað á árinu. Handboltamótin eru mjög vinsæl. Það fyrra haldið að vori til og hið seinna og jafnframt það stærra er á haustin. Þetta eru öflug mót og góð viðbót inní bæjarfélagið á annars rólegum tíma í ferðaþjónustunni. Þá var Pæjumót TM haldið í júní og tókst það mjög vel og er það von mín að það mót komi til með að stækka nokkuð á næstu árum. Shellmótið var haldið hálfum mánuði seinna. Mótið er vinsælasta mót landsins og komast færri að en vilja. Frábært að sjá þegar að sú vél er sett í gang og knúin áfram að sjálfboðaliðum ÍBV sem og af Skeljungi. Hún hikstar aldrei.

Þjóðhátíð
Þjóðhátíðin er og verður lang mikilvægvægasta fjáröflun ÍBV. Því ber að hlúa vel að henni. Í skýrslu sem félagið lét gera yfir þrjár stærstu ferðahelgarnar í sumar kom glöggt fram hversu mikilvægt félagið er verslun og þjónustu hér í bæ. Bara í kringum um þjóðhátíðarhelgina eru útgjöld ferðamanna í Vestmannaeyjum um 600 milljónir króna. Þetta eru miklar tekjur á ekki lengri tíma. Er það von mín að í framtíðinni fylki bæjarbúar sér á bakvið viðburðinn og reyni að styðja þá menn sem taka að sér jafn krefjandi verkefni og Þjóðhátíð, þeirra markmið verður það sama og allra hingað til, að reyna að laða hingað sem flesta ferðamenn til hagsbóta fyrir alla, ekki bara ÍBV. Nýrri þjóðhátíðarnefnd óska ég velfarnaðar í störfum sínum fyrir félagið. En þá að Þjóðhátíðinni 2012. Hún lukkaðist mjög vel. Góður stígandi var í aðsókn  og sló sunnudagsaðsóknin öll met. Gaman að sjá hversu vel fólk tók þessari nýbreyttni að bjóða uppá dagsferðir með Herjólfi. Þannig fáum við fólk til að heimsækja okkur sem ekki hefur tök á því að gista.

Þakkir
Í lok mánaðarins mun undirritaður láta af störfum sem framkvæmdastjóri ÍBV. Þessu starfi hef ég gengt í tæp þrjú og hálft ár. Þessi tími hefur verið bæði krefjandi og gefandi. Ánægjustundirnar eru sem betur fer fleiri en þær erfiðu og sitja ofar í kollinum þegar að ég hverf til annara starfa. Áður en ég tók við sem framkvæmdastjóri var ég búinn að starfa bæði í stjórn félagsins og í þjóðhátíðarnefnd í um áratug. Ég hef því náð að starfa með mörgu góðu fólki. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum samstarfsfélögum, meðstjórnarmönnum og öllu því óeigingjarna fólki sem er ávallt tilbúið að starfa fyrir félagið sitt þegar að leitað er til þeirra. Þá óska ég nýjum framkvæmdastjóra, Dóru Björk Gunnarsdóttur  velfarnaðar í starfi.
Gleðilegt nýtt ár.

Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV

Greinin birtist í Þrettándablaði ÍBV.