Elísa Viðarsdóttir Íþróttamaður Vestmannaeyja 2012.

18.jan.2013  20:31
Elísa Viðarsdóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna í knattspyrnu var í gærkvöldi valin íþróttamaður Vestmannaeyja.  Elísa er vel að þessu vali komin enda leiddi hún lið sitt til sigurs í Íslandsmótinu innanhús-Futsal, þá tryggðu eyjastúlkur sér silfurverðlaun á Íslandsmótinu og einnig hefur Elísa látið vel af sér kveða í landsliðum Íslands.
Þess má til gamans geta að Elísa er systir Margrétar Láru Viðarsdóttur sem var kjörin íþróttamaður Vestmannaeyja árið 2004.
Elísa byrjaði ung að æfa fótbolta og hefur allan sinn feril leikið með uppeldisfélagi sínu ÍBV.   Elísa  þótti  strax efnilegur varnarmaður sem þótti gaman að sækja upp völlinn, stundum á óskynsamlegum tímum í leiknum,  þjálfara sínum til mikils ama. Varnarleikurinn er sterkasta hlið Elísu en hefur með árunum bætt sig mikið sóknarlega enda hefur hún í seinni tíð lagt upp fleiri og fleiri mörk fyrir lið sitt. Elísa býr yfir miklum hraða og mikilli hlaupagetu og þykir mjög sterk í stöðunni 1:1. 
Eftir að hafa misst af sæti í U-17 ára landsliðinu vann hún sér sæti í U-19 ára landsliðinu og sannaði þar landsliðsþjálfarar mega líta fjær eftir góðum leikmönnum. Elísa lék alls 7 leiki með U-19. Eftir það hefur Elísa svo leikið einn leik með U-23 ára liðinu þar sem hún var fyrirliði liðsins. Þá hefur Elísa undanfarið verið valin reglulega til æfinga með A-landsliði Íslands og er nú í undirbúningshóp liðsins fyrir EM í Svíþjóð í sumar. Elísa hefur spilað 4.leiki með A-landsliðinu og eiga þeir án efa eftir að vera fleiri. 
Elísa tók við fyrirliðastöðunni hjá ÍBV í sumar er liðið náði þeim frábæra árangri að lenda í 2.sæti í úrvalsdeild. Elísa lék alla 18 leiki liðsins í sumar oftast sem bakvörður en einnig sem miðvörður. Elísa hefur leikið 89 leiki með meistaraflokki ÍBV og skorað í þeim 9 mörk.
 
Ummæli þjálfa  um Elísu.
Elísa er leikmaður sem gott er að þjálfa og leggur sig alltaf 100% fram hvort sem er á æfingum eða í leikjum. Þessi ákefð hefur skilað Elísu því sem hún hefur uppskorið í dag en Elísa hefur þurft að vinna fyrir öllu sínu þar sem hún fæddist ekki með allan hæfileikann.   Elísa æfir mikið aukalega og hefur náð að bæta sína veikleika svo um munar. Þá hefur Elísa það keppnisskap sem þarf til að ná í fremstu röð. Elísa heiðarleg og heilsteyptur persónuleiki og því mikil fyrirmynd ungu kynslóðarinnar enda sannur fyrirliði.
ÍBV-íþróttafélag óskar Elísu innilega til hamingju með þenna glæsilega titil.