Nú á dögunum var framlengdur samningur á milli Vestmannaeyjabæjar og ÍBV-íþróttafélags um áframhaldandi samstarf við grunnskólaakademíuna. Verkefnið hefur tekist með eindæmum vel og eru allir aðilar sem koma að verkefninu mjög ánægðir. Eftirfarandi bókun var sett fram um málið í fræðslu- og menningarráði:
Endurnýjun á samningi við ÍBV-íþróttafélag vegna reksturs íþróttaakademíu við GRV.
Vestmannaeyjabær og ÍBV-íþróttafélag gerðu með sér samstarfssamning vegna þróunarverkefnis á vorönn 2012 þar sem sett var á fót íþróttaakademía við GRV. Samstarf þetta hefur haldist á haustönn 2012 og vilji er til að halda því áfram af beggja hálfu.
Markmið verkefnisins er að:
Efla áhuga, metnað og árangur ungra íþróttamanna í námi og íþróttum
Draga úr brottfalli úr íþróttum á viðkvæmum aldri
Sporna við vímuefnaneyslu unglinga
Fylgja eftir skóla-, æskulýðs-, og íþróttastefnu sveitarfélagsins
Koma á formlegra samstarfi milli GRV og ÍBV-íþróttafélags
Auka þjónustu við afreksfólk og hvetja nemendur til að tileinka sér hugmyndafræði íþrótta í námi og hugmyndafræði náms í íþróttum
Milli 30 - 40 nemendur í 9. og 10. bekk hafa stundað nám við íþróttaakademíuna og hefur markmiðum verkefnisins verið náð með sóma. Umsjón með verkefninu hefur verið í höndum ÍBV-íþróttafélags og hafa einstaklingar frá félaginu stýrt því af miklum metnaði og myndarskap. Sérstök ánægja er með að verkefnið hefur stuðlað að mun formlegra og betra samstarfi milli GRV og ÍBV-íþróttafélags undir heitinu "Stefnum hærra saman". Afleiðingin er jákvæðari og bættur skilningur á áherslum og starfi hvors annars sem kemur nemendum sem stunda íþróttir til góða bæði hvað varðar íþróttastarfið og námið.
Fræðslu- og menningarráð samþykkir áframhaldandi stuðning Vestmannaeyjabæjar við verkefnið og felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að ganga frá endurnýjuðum samstarfssamningi við ÍBV-íþróttafélag. Gert hefur verið ráð fyrir kostnaði í fjárhagsáætlun 2013. Verkefni þetta er frumkvöðlaverkefni sem hefur á árinu hlotið úthlutun úr Sprotasjóði Menntamálaráðuneytis og úr Lýðheilsusjóði Landlæknisembættisins. Því vill ráðið við þetta tilefni veita aukalega 400.000 krónum til verkefnisins vegna þess góða árangurs sem náðst hefur á þeim stutta tíma sem verkefnið hefur verið í gangi og með góðri trú um áframhaldandi árangur á sviðum forvarna, ástundunar náms- og íþrótta og samstarfs milli grunnskóla og íþróttahreyfingarinnar.