Yngri flokkar - Hamborgarafabrikkan afhendir barna- og unglingastarfi ÍBV eina milljón króna

11.okt.2012  13:24
Hamborgarafabrikkan og Þjóðhátíð gengu til samstarfs í sumar þar sem Hamborgarafabrikkan grillaði Fabrikkuborgara í Herjólfsdal um Þjóðhátíðarhelgina. Verkefnið heppnaðist með ágætum og var þessari nýjung vel tekið af Þjóðhátíðargestum.
 „Það var skemmtileg viðbót við framboð veitinga í dalnum að fá Hamborgarafabrikkuna á Þjóðhátíð og liður í því að bjóða fjölbreyttari þjónustu fyrir Þjóðhátíðargesti. Ein af forsendum samstarfsins var sú að Barna- og unglingastarf ÍBV myndi njóta hluta afraksturins og nú er það orðið að veruleika “, segir Páll Scheving, formaður Þjóðhátíðarnefndar.

 
Simmi og Jói mættu til Vestmannaeyja í vikunni með myndarlega ávísun og veitti Tryggvi Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri ÍBV, henni viðtöku, í hópi hressra krakka í barnaskólanum.
“Það er okkur sönn ánægja að hluti ÍBV af verkefninu renni til Barna- og unglingastarfs, þar sem við vitum að það kemur að góðum notum. Það var okkur sannur heiður að fá að vera hluti af Þjóðhátíð í ár og við viljum þakka Þjóðhátíðarnefnd kærlega fyrir frábært samstarf. “ sagði Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar.