ÍBV íþróttafélag og Íslandsbanki framlengja samstarf

28.sep.2012  14:28

 

Íslandsbanki og ÍBV-íþróttafélag hafa átt farsælt samstarf um langt skeið sem hefur beinst að því að efla það viðamikla starf sem er innan félagsins. Á árinu rennur út gildandi samningur og nú liggur fyrir nýr samningur um áframhaldandi og enn meiri stuðning Íslandsbanka við öfluga starfsemi ÍBV-íþróttafélags.

 

Félagið hefur um árabil eða allt frá stofnun þess árið 1997 verið eitt af öflugustu íþróttafélögum landsins í knattspyrnu og handknattleik. Félagið heldur úti öllum aldursflokkum í handknattleik og knattspyrnu og eldri flokkar félagsins státa af glæsilegum árangri undanfarin ár. Yngri flokkar félagsins eiga einnig farsæla sögu og verður það meginmarkmið félagsins að efla ástundun yngri iðkenda, til að félagið verði áfram öflugt og styrk stoð í samfélaginu. Iðkendur á vegum félagsins eru á hverju ári að ná langt á meðal sinna jafnaldra hér á landi, eins og sést með öllu því landsliðsfólki sem félagið á í yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu og handknattleik.

Íslandsbanki og ÍBV-íþróttafélag

Nýr samningur gildir fyrir árin 2012-2014 og á þeim tíma mun Íslandsbanki vera einn aðalstyrktaraðili félagsins fyrir handknattleiks- og knattspyrnulið félagsins. Samningurinn tekur yfir starfsemi félagsins frá þeim elstu og til þeirra yngstu, en þó með aðaláherslu á yngri flokka starfs félagsins. Allir yngri flokkar félagsins í knattspyrnu og handknattleik verða merktir Íslandsbanka framan á keppnistreyjum eins og undanfarin ár. Íslandsbanki leggur mikið upp úr því að viðhalda og efla unglingastarf innan félagsins og er samningurinn einn liður í því. Öflugt unglingastarf er undirstaða í starfsemi allra íþróttafélaga og þar verður til sá auður sem ÍBV-íþróttafélag byggir á. Íslandsbanki er og verður áfram öflugur bakhjarl íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum

Íslandsbanki og ÍBV-íþróttafélag lýsa yfir ánægju sinni með áframhaldandi samstarf, og um leið hvetja alla iðkendur til að stunda íþróttir sínar af alúð og krafti.