Kvennalið ÍBV lék gegn Valsstúlkum á þriðjudag að Hlíðarenda. Leikmenn ÍBV fóru hreinlega á kostum í fyrri hálfleik og hefðu átt að vera minnst 4.mörkum yfir í hálfleik en ótrúleg frammistaða markvarðar Vals kom í veg fyrir örugga forystu í hálfleik. Leikmenn ÍBV sköpuðu sér hvert færið eftir öðru en inn vildi boltinn ekki. Shaneka Gordon komst í þrígang ein gegn markverðinum en mistókst í öll skiptin að skora. Þá áttu Kristín Erna, Danka og Vesna allar mjög góð færi til að skora en brást bogalistin. Í seinni hálfleik var jafnræði fyrstu 10.mínúturnar en þá kom sögulegur kafli í leik ÍBV þegar Valur gerði 3.mörk á 5.mínútum og gerði algjörlega út um leikinn. Reyndar fékk ÍBV enn eitt dauðafærið þegar Shaneka komst ein í gegn án þess að skora. Þegar leið á hálfleikinn fékk Valur svo vítaspyrnu en Bryndís Lára gerði sér lítið fyrir og varði glæsilega. Mjög ósanngjörn úrslit litu dagsins ljós þarna en leikmenn ÍBV verða að halda haus og vera áfram meðal efstu liða.
Næsti leikur liðsins er gegn FH næsta þriðjudag kl. 18.00 á Hásteinsvelli.
Eyjamenn fjölmennum á völlin og hvetjum stúlkurnar til sigurs.
Áfram ÍBV.