Frábærir leikir í kvennaboltanum.

06.júl.2012  14:19
Tveir síðustu leikir kvennaliðsins hafa heldur betur boðið uppá mikla spennu.  Fyrst tók ÍBV á móti Breiðablik í bikarnum þar sem Blikar komust í 2-0 í fyrri hálfleik en Danka náði að minnka muninn rétt fyrir leikhlé.  Í seinni hálfleik jafnaði svo ÍBV metin með marki frá Vesnu.  Aftur náði Breiðablik að komast yfir 3-2 en ÍBV neitaði að gefast upp og jöfnuðu enn metin með marki frá Julie úr vítaspyrnu.  Framlengja þurfti því leikinn.  Þegar langt var liðið á framlengingu náðu Blikar að komast yfir 4-3 og voru þá manni fleirri en þegar ein mínúta var eftir af leiknum jafnaði Shaneka Gordon metin fyrir ÍBV þannig að úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.  Breiðablik hafði betur þar eftir að keppnin hafði farið í bráðabana.
Ótrúleg barátta ÍBV dugði vel en því miður varð þetta niðurstaðan.  Það verður ekki hjá því komist að minnast á þétt hörmulegs dómaratríós í leiknum en tveimur  leikmönnum ÍBV var vikið af velli fyrir litlar sakir.  Í þokkabót sá dómari leiksins ástæðu til að setja Elínborgu í tveggja leikja bann.
Leikmenn ÍBV geta borið höfuð hátt eftir þennan æsispennandi leik.
Á þriðjudag tók svo ÍBV á móti Stjörnunni hér á Hásteinsvelli.  ÍBV átti mjög slakan fyrri hálfleik og var eins og bikarleikurinn sæti enn í stúlkunum.  Stjarnan var 2-0 yfir í hálfleik en með mikilli seiglu tókst ÍBV að jafna leikinn með tveimur mörkum frá Dönku.  Fyrra markið var úr vítaspyrnu en jöfnunarmarkið með frábæru skoti rétt utan teigs.
Toppbaráttan er mjög spennandi þar sem lið Þórs/KA situr á toppnum með 19 stig.  Breiðablik í 2.sæti með 17 stig eins og Stjarnan.  ÍBV er svo í 4.sæti með 16.stig
Næsti leikur ÍBV er á þriðjudag gegn KR á útivelli.
 
Eyjamenn fjölmennum og hvetjum ÍBV til sigurs.
 
ÁFRAM ÍBV.