Forvarnarhópur ÍBV verður til

06.júl.2012  10:21

Þann 28. júní síðast liðinn ákváðu grasrótar hreyfing í Vestmannaeyjum og Þjóðhátíðarnefnd ÍBV að stofna forvarnahóp ÍBV.  Hópurinn hefur fengið það hlutverk að standa fyrir sérstöku átaksverkefni gegn kynferðisofbeldi og verður það verkefni áberandi á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum nú í byrjun ágúst.

Það er einróma mat forvarnarhóps ÍBV að mikilvægt sé að efla forvarnir á þessu sviði enda sé það forgangsverkefni að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér yfirleitt stað.  Markmið hópsins er því fyrst og fremst að vekja athygli á málefninu á sýnilegan hátt því málefnið snerti alla gesti hátíðarinnar.  Kynferðisofbeldi er ekki liður í dagskrá Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum og verður aldrei liðið.

 
Forvarnahópur ÍBV mun boða til blaðamannafundar í næstu viku þar sem verkefnið verður kynnt og formlega sett af stað.