ÍBV Íþróttafélag fær gæðastimpilinn „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“

11.maí.2012  09:19

Árni Stefánsson skrifar

Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) er með ákveðið gæðakerfi sem snýr að því hvernig starfsemi íþróttafélaga er háttað. Ef félög óska eftir, geta þau látið ÍSÍ gera úttekt á starfsemi sinni með það fyrir augum að geta tekið upp gæðastimpilinn „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“. Til þess að standast kröfur ÍSÍ verða aðildarfélögin uppfylla ákvæði varðandi menntun þjálfara, unglingastarf,  forvarnarstarf og búa til námsskrár fyrir þjálfun barna og unglinga svo að dæmi séu nefnd.
Fyrir einu ári síðan fór stjórn ÍBV-Íþróttafélags þess á leit við mig að ég myndi taka að mér vinnu sem fæli í sér að ÍBV gæti orðið „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“.

 
Til þess að svo gæti orðið þá þurfti að fara í gegn um alla þætti starfsins og skerpa á markmiðum félagsins, sem eru að gefa öllum jöfn tækifæri til að stunda íþróttir.
Þetta þýðir í raun að við erum tilbúin að taka við öllum þeim sem vilja stunda íþróttir hjá okkur.

Eitt af helstu markmiðum félagsins er að öllum börnum og unglingum sem vilja stunda íþróttir verði skapaðar aðstæður til þess, þegar þau hafa aldur og þroska til.  

Langtímamarkmið í þjálfun barna og unglinga er að þroska þau og skapa áhuga á íþróttum sem endist ævilangt.

Við erum fyrst og fremst að ala upp íþróttamenn í yngstu flokkunum fremur en afreksmenn en að sjálfsögðu er eitt stærsta markmið okkar að búa til góða einstaklinga og skila í leiðinni iðkendum upp í meistaraflokka félagsins.

Til að þetta gangi sem best þurfti að búa til námsskrár fyrir fótbolta (sem var að mestu til, unnin af Gísla Hjartarsyni) og handbolta, þar sem farið er í gegn um hvað skuli að leggja áherslu á,  í hverjum aldursflokki fyrir sig. Þetta er mjög nauðsynlegt svo að framfarir séu sem mestar.
Sett er fram stefna ÍBV-Íþróttafélags í jafnréttismálum þar sem kemur fram að allir hafi jafnan rétt til iðkunar íþrótta hjá félaginu án tillits til kyns, litarháttar eða þjóðfélagsstöðu.
Lögð er rík áhersla á að drengir og stúlkur fái jafn mikinn æfingatíma og jafn góða þjálfun.
Einelti og kynferðisleg áreitni verður ekki liðið innan félagsins og verður tekið strangt á slíkum málum.
ÍBV – Íþróttafélag mun einu sinni á ári bjóða þjálfurum sínum og starfsfólki upp á námskeiðið
Verndarar barna sem boðar byltingu í fræðslu, forvörnum og viðbrögðum við einelti og
kynferðislegri misnotkun á börnum. Markmiðið  með námskeiðinu er að veita öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við einelti og kynferðislegri misnotkun barna af hugrekki og ábyrgð.

Í skýrslunni kemur skýrt fram hvað á að gera ef minnsti grunur leikur á að um einelti eða kynferðislegt áreiti geti verið að ræða og hvert eigi að snúa sér.
Settar eru fram siðareglur sem eiga að hjálpa foreldrum, iðkendum, stjórnarmönnum og þjálfurum að koma rétt fram og vera alltaf félaginu til sóma hvort sem er innan vallar eða utan.
Fram kemur í Vímuvarnarstefnu félagsins að það sé yfirlýst stefna ÍBV í vímuvarnarmálum að íþróttir og vímuefni eigi ekki samleið.

Íþróttaþjálfarinn er fyrirmynd iðkendanna og þess vegna þarf hann að fræða þá um skaðleg áhrif áfengis, tóbaks og fíkniefna, á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum.

Með þessu aukum við þekkingu iðkenda á vímuefnum og aukum líkurnar á því að þau láti þau í friði.

Stjórn ÍBV mun árlega standa fyrir námskeiði fyrir þjálfara og leiðbeinendur um forvarnir, heilbrigt líferni, mataræði, svefn, reglusemi,snyrtimennsku, stundvísi og jákvætt hátterni.
 
Leggja þarf ríka áherslu á það við iðkendur að þau átti sig á því íþróttir byggi upp heilbrigða sál í hraustum líkama, en vímuefnin sjái um að brjóta niður líkama og sál.

Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir sýna að ungmennum sem eru virk í íþróttastarfi gengur betur í námi og íþróttum og neyta síður vímuefna .

Einnig sýna rannsóknir að neysla vímuefna og tóbaks hafa skaðleg áhrif á árangur í íþróttum.

Megintilgangur ÍBV-íþróttafélags með því að gerast „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ er að móta stefnu félagsins  í barna- og unglingaþjálfun, setja fram stefnu í jafnréttismálum, eineltismálum, setja okkur siðareglur og marka ákveðna stefnu í vímuvarnarmálum. Stefnumótunin er að hluta til fyrir foreldra, en það þarf að virkja þá meira í tengslum við barna- og unglingastarfið.
Einnig er hér um að ræða skipulagningu á starfinu sem er ætluð þjálfurum, stjórnarmönnum og iðkendum.

Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins. Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttafélagið að sýna það í verki að það geri raunhæfar kröfur til sjálfs sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem það vinnur. Þetta höfum við gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfið eigi að vera. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna- og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf.
Líklegur ávinningur af því að verða „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“   er margvíslegur. Félög sem hljóta þá viðurkenningu eiga auðveldara með að afla sér stuðnings frá sveitarfélögum sínum og öðrum stuðningsaðilum, sem frekar vilja leggja nafn sitt við fyrirmyndarfélög en önnur félög. Tími og fjármunir félaganna munu því nýtast betur. Foreldrar munu væntanlega frekar senda börn sín til fyrirmyndarfélaga en annarra félaga. Þetta ætti að verða öðrum félögum hvatning til að bæta starf sitt og uppfylla gæðakröfurnar, til að geta fengið þessa viðurkenningu. Afraksturinn verður væntanlega betra íþróttastarf og betri ímynd hreyfingarinnar.

Stefnumótunin er að sjálfsögðu ekki endanleg heldur verðum við að vera dugleg við að gagnrýna okkur sjálf og þróa okkur þannig að við getum verið sátt.

Við hjá ÍBV-Íþróttafélagi erum stolt af starfi okkar og það er mjög ánægjulegt að hafa náð þeim áfanga að fá gæðastimpilinn:  „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“

Við munum halda áfram að vinna okkar góða starf og reyna í leiðinni að gera okkar iðkendur að betri þjóðfélagsþegnum.

Kær kveðja

Árni Stefánsson
Yfirþjálfari yngri flokka ÍBV í handbolta.