Yngri flokkastarf ÍBV í handbolta

08.maí.2012  11:51

Árni Stefánsson skrifar

Við hjá ÍBV Íþróttafélagi erum mjög stolt af unglingastarfi okkar í handboltanum. Starfsemin hefur vaxið mikið hjá okkur síðustu tvo vetur og teljum við okkur nú vera komin í fremstu röð í öllum flokkum bæði hvað varðar árangur og iðkendafjölda.
Við erum með flokka í keppni í öllum aldursflokkum og tökum þátt í öllum mótum þrátt fyrir að um veruleg ferðalög sé um að ræða hjá okkur. Við leggjum ríka áherslu á að vera alltaf með, svo að okkar krakkar fái að keppa eins oft og hægt er,  því að erfitt er fyrir okkur að fá æfingaleiki við hæfi. Við höfum þó reynt að hafa það sem reglu að fara með 5. 4. og 3.flokk upp á land í æfingaferðir áður en keppnistímabilið hefst og m.a. farið í æfingabúðir á Selfoss sem hafa mælst mjög vel fyrir bæði hjá iðkendum og foreldrum.

 
Keppnisferðir
ÍBV Íþróttafélag greiðir allan ferðakostnað við Íslandsmót fyrir iðkendur sína, bæði allar ferðir með Herjólfi og allar rútuferðir og einnig hefur það greitt niður gistingu að hluta þegar um er að ræða keppni í Íslandsmótum. Þetta kemur sér mjög vel þar sem um mikil ferðalög er að ræða hjá krökkunum, 5. og 6.flokkur fara í 5 ferðir á keppnistímabilinu og 4. og 3.flokkur fara í um 10 ferðir. Við reynum að taka tvo leiki í hverri ferð til að spara kostnað en auðvitað vitum við að það getur komið niður á árangri að spila dag eftir dag. Æfingagjöld hjá ÍBV eru með því lægsta sem gengur og gerist á landinu og er innifalið í þeim að iðkendur fá merkta búninga sem þau nota eingöngu þegar þau eru að keppa á vegum félagsins. Við reynum að kenna þeim að bera virðingu bæði fyrir félaginu og búningi þess.

Foreldra- og félagsstarf
Foreldrastarfið hjá ÍBV er mjög virkt, foreldrar taka ríkan þátt í starfinu og fylgjast með krökkunum sínum af miklum áhuga og er oft fjöldi áhorfenda á heimaleikjum.  Einnig þarf alltaf að fá foreldra með í ferðir sem fararstjóra og gengur það mjög vel.  Allan veturinn eru í gangi fjáraflanir til að ferðirnar verði sem ódýrastar fyrir iðkendurna. Sá peningur sem safnast fer í sjóð sem krakkarnir eiga og er hann notaður í keppnisferðum til að greiða fyrir gistingu, allan mat og einnig er reynt að gera alltaf eitthvað til gamans, eins og að fara í sund eða kvikmyndahús og þá er þessi sjóður einnig notaður. Krakkarnir þurfa ekki að hafa með sér neinn pening í keppnisferðir vegna þess að allt er borgað með þessum sjóði. Flokkarnir halda yfir veturinn skemmtikvöld þar sem hver flokkur hittist og gerir eitthvað skemmtilegt saman og hafa þau vakið mikla lukku.
Í júlí á síðasta ári fórum við með 4.flokk karla og kvenna til Gautaborgar til að keppa á Partille Cup. Það var tæplega 40 manna hópur sem fór og tókst sú ferð í alla staði mjög vel og voru krakkarnir félaginu til sóma. Þesar ferðireru alltaf annað hvert ár til þess að allir sem æfa handbolta geti fengið tækifæri til að fara með.
Við skipulögðum ferð fyrir krakka á aldrinum 14-15 ára í handboltaskóla til þýska úrvalsdeildarliðsins  Rhein-Neckar Löwen í lok júlí í fyrra. Ferð þessi var vel heppnuð, alls fóru 15 krakkar í ferðina ásamt fararstjóra frá ÍBV. Krakkarnir tóku þátt í handboltaskólanum í 5 daga og lærðu þar heilmikið.

Fjöldi flokka og iðkenda
Að halda út öflugu íþróttastarfi í litlu bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjar eru, skiptir miklu máli og reynum við að fá eins marga krakka til að æfa eins og mögulegt er. Þegar við skoðum hversu margir æfa í flokkunum þá kemur í ljós að í 8.flokki, eða handboltaskólanum eins og við höfum kallað hann, þá erum við með nú 38 iðkendur. Á fyrstu æfingunum síðasta haust þá mættu á bilinu 11-15 en síðan hefur þeim fjölgað gríðarlega. Ástæðan er sú að við fórum í skólann og hvöttum krakkana til að prófa að mæta og erum með mjög góðan þjálfara og aðstoðarmenn sem hafa sinnt þeim einstaklega vel.
Til að átta sig á hversu margir eru að æfa handbolta þá skoðuðum við fjölda krakka í hverjum árgangi fyrir sig og í 1. og 2. bekk, þá eru 98 nemendur þannig að það eru um 40% af krökkunum að æfa handbolta.
Í 7.flokki erum við með 24 stráka og 24 stelpur eða alls 48 iðkendur af 106 krökkum í 3. og 4.bekk þannig að þar er hlutfallið um 45%
Í 6.flokki erum við með 20 stráka og 29 stelpur eða alls 49 iðkendur af 108 krökkum í 5. og 6.bekk þannig að þar er hlutfallið um 45%
Í 5.flokki erum við með 37 stráka og 24 stelpur eða alls 61 iðkanda af 129 krökkum í 7. og 8.bekk þannig að þar er hlutfallið um 45%
Í 4.flokki erum við með 23 stráka og 16 stelpur eða alls 39 iðkandur af 130 krökkum í 9. og 10.bekk þannig að þar er hlutfallið um 30%
Í 3.flokki karla erum við með 13 iðkendur en fyrir tveimur árum þegar þessir sömu strákar voru í 4.flokki þá voru þeir svo fáir að þeir tóku ekki þátt í Íslandsmótinu, þannig að við erum mjög ánægðir með þessa þróun.
Í 3.flokki kvenna eru 17 stelpur að æfa af fullum krafti og eru sumar af þeim einnig að æfa og spila með meistaraflokki.

Menntun þjálfara
Þetta háa hlutfall segir okkur að við séum á réttri leið í þjálfun krakkanna enda erum við með mjög hæfa þjálfara á öllum flokkum að okkar mati. Í öllum flokkum hjá strákunum erum við með þjálfara sem eru annað hvort menntaðir íþróttakennarar eða almennir kennarar og hafa þeir flestir langa reynslu af þjálfun. Hjá stelpunum erum við með menntaða kennara auk þess að vera með þjálfara sem hafa þjálfað í áratugi. Við vitum að það skiptir öllu máli að vera með góða þjálfara til þess að framfarirnar hjá iðkendunum verði sem mestar og einnig til að halda þeim sem lengst í handbolta. Við erum með yfirþjálfara yfir yngri flokkunum sem heldur fundi með þjálfurunum, fer á æfingar, fylgist með og aðstoðar þjálfara og sér um að allir séu að stefna í sömu átt við það að bæta og þroska iðkendurna.
Við leggjum áherslu á að framkoma þjálfara og iðkenda, bæði innan vallar sem utan, sé sem best vegna þess að við viljum að þegar talað er um ÍBV þá sé það tengt við kraftmikið íþróttafólk sem leggur sig fram en sé fyrst og fremst félaginu til sóma.

Árangur
Við hjá ÍBV erum mjög ánægð með árangurinn hjá okkar liðum í vetur og er hann sem hér segir:
Í 3.flokki kvenna enduðum við í 6 sæti í efstu deild og komumst í 8 liða úrslit í bikarnum.
Í 3.flokki karla enduðum við í 8 sæti í efstu deild og komumst í 16 liða úrslit í bikarnum.
Í 4.flokki kvenna enduðum við í 3 sæti í efstu deild og komumst í undanúrslit í bikarnum og komumst í undanúrslit í Íslandsmótinu, þar sem við töpuðum með einu marki.
Í 4.flokki karla enduðum við í 6 sæti í efstu deild og komumst í undanúrslit í bikarnum og komumst í undanúrslit í Íslandsmótinu, þar sem við töpuðum með einu marki.
Í 5.flokki kvenna á eldra ári enduðum við í 15. sæti í Íslandsmótinu.
Í 5.flokki karla á eldra ári enduðum við í 3. sæti í Íslandsmótinu.
Í 5.flokki kvenna á yngra ári enduðum við í 2. sæti í Íslandsmótinu.
Í 5.flokki karla á yngra ári enduðum við í 3. sæti í Íslandsmótinu.
Við getum verið stolt af þessum árangri en auðvitað vitum við að árangurinn er ekki mældur í titlum eða sigrum, heldur hvernig okkur tekst til við að ala upp íþróttafólk framtíðarinnar auk þess að þroska okkar iðkendur og gera þau að betri persónum.


Umsjón með mótum

Á undanförnum árum hefur skapast sú hefð að ÍBV sér um að halda eitt fjölliðamót fyrir 5.flokk bæði karla og kvenna og er það á haustin og einnig að haldafjölliða mót fyrir 6.flokk sem er í lok apríl. Mót þessi hafa tekist mjög vel, aðkomukrökkunum hefur fundist gaman að koma til Vestmannaeyja og höfum við reynt að gera dvölina sem skemmtilegasta fyrir þau. Við erum með öflugt unglingaráð sem hefur mikla reynslu í að halda svona mót og má segja að hápunktur þessara móta sé kvöldvakan sem allir bíða spenntir eftir. Þar er boðið m.a. upp á „brekkusöng“ og leik þar sem Landsliðið spilar við Pressuliðið en í þeim liðum eru þeir krakkar sem stóðu sig best á mótinu.

Íþróttaakademía


Við erum búin að setja í gang hjá okkur Íþróttaakademíu í samvinnu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum þar sem nemendum sem stunda handknattleik er boðið upp á að stunda grein sína við bestu aðstæður og fá það metið sem einingar til stúdentaprófs. Þar er um að ræða  tvær aukaæfingar snemma á morgnana, styrktarþjálfun og bóklega kennslu um það sem skiptir máli til þess að ná langt í handknattleik. Þarna er um að ræða krakka sem eru í 3. og 2.flokki og sjáum við miklar framfarir hjá þeim. Akademía er búin að vera starfrækt í þrjár annir og alls hafa um 25 handboltakrakkar verið í henni og erum við ánægð með að skiptingin hefur verið nær jöfn hvað stráka og stelpur varðar. Strangar reglur eru í akademíunni í sambandi við mætingar og öll notkun áfengis, tóbaks og fíkniefna er algjörlega bönnuð. Vel hefur gengið að láta nemendur framfylgja þessum reglum og erum við núna með metnaðarfullan hóp sem er tilbúinn að leggja mikið á sig.

Þessi akademía hefur tekist svo vel að bæjarstjórn Vestmannaeyja fór þess á leit við okkur að við settum upp sambærilega akademíu fyrir 9. og 10. bekk grunnskólans hér í bæ. Við byrjuðum með hana um síðustu áramót og erum þar með um 20 krakka, sem fá aukaæfingar í handbolta á morgnana áður en skólinn byrjar, styrktarþjálfun og fyrirlestra um rétt hugarfar og framkomu, rétt mataræði og fleira sem þarf til að ná árangri í íþróttum. Við erum í nánu sambandi við grunnskólann og ef nemendur standa sig ekki í skólanum, hvað hegðun, mætingar og heimanám varðar,  þá fá þau ekki að mæta í akademíuna í ákveðinn tíma. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir hjá kennurum og ekki síður foreldrum sem finna mun á því hvað krakkarnir eru viljugari að vinna heimavinnuna sína og hegðun í skólanum hefur batnað.

Við hjá ÍBV erum ánægð með þá þróun sem hefur orðið hjá okkur í handboltanum á síðustu árum og stefnum að því að gera enn betur í framtíðinni. Sem betur fer þá erum við með öflugan hóp fólks sem er tilbúið að leggja mikið á sig í sjálfboðavinnu fyrir félagið og það er ástæðan fyrir því að við getum haldið úti því öfluga unglingastarfi sem við viljum.

Fyrir hönd unglingaráðs ÍBV
Með handboltakveðju
Árni Stefánsson
Yfirþjálfari yngri flokka ÍBV
Í handknattleik