Ársskýrsla ÍBV-Íþróttafélags

29.apr.2012  14:06

Sem Jóhann Pétursson formaður flutti á aðalfundi félagsins

Ágætu félagar.  Starfsemi ársins 2011 hófst líkt og hefðbundið er með myndarlegri Þrettándagleði.  Þrettándinn var haldinn þann 6. jan. sem bar uppá föstudegi.  Gekk hann einstaklega vel fyrir sig og var fjölsóttur af Eyjamönnum og gestum þeirra.  Þrettándinn er unninn, eins og margt annað hjá okkur, í góðri samvinnu við Vestmannaeyjabæ og fjölmargir félagar sem koma að því að gera þessa skemmtun að þessum einstæða atburði sem hún er.  Hafi þeir allir mikla þökk fyrir framlagið og dugnaðinn.

En íþróttalífið er það sem þetta snýst um.  Það er óhætt að segja að það sé blómlegt hjá félaginu.

 
Handboltinn er sterkur hjá félaginu og byggir á sterkri hefð.  Áhersla hefur verið lögð á að styrkja innviði rekstursins og greiða hratt niður skuldir.  Hefur deildinni orðið mjög vel ágengt í þeirri ferð sinni sem hefur án efa komið niður á íþróttalegum árangri en auðvitað fer fjárhagsleg staða og íþróttalegur árangur að lokum saman til lengri tíma litið.
Meistaraflokkur karla lauk keppni árið 2011 í 4 sæti í 1. deild og datt út úr bikarnum í 32 liða úrslitum gegn ÍR.  Tímabilið 2011/2012 byrjaði mjög vel en botninn datt úr því eftir því sem leið á tímabilið og er verið að skoða það gaumgæfilega hvað betur má fara eins og eðlilegt má teljast.  Kvennaliðinu hefur gengið mun betur og lék á síðasta tímabil í N1 deildinni.  Árið 2011 lauk liðið keppni í 6. sæti deildarinnar og féll að lokum út í bikar í 8 liða úrslitum gegn Val.  Yfirstandandi tímabil gekk hins vegar enn betur og fór liðið í úrslit bikarkeppninnar og lenti þar á móti nánast landsliði Íslands þar sem Valsliðið er og mátti þola tap í ágætum leik.  Nú er liðið í 8 liða úrslitum gegn Gróttu og gengur vonandi vel.   Í heild mjög góður árangur.  Eins og áður sagði hefur áherslan verið lögð á að styrkja grunn deildarinnar og greiða hratt upp skuldir.  Það markmið hefur náðst og er deildin í dag skuldlaus og rekur sig réttum megin við núllið.  Slíkt er vænlegt til íþróttalegs árangurs til framtíðar litið.
   

Vetrarlok  ÍBV voru haldin í Höllinni og tókust mjög vel að venju og fjölmargir félagar skemmtu sér þar hið besta.  Handboltafólk ársins voru Guðbjörg Guðmannsdóttir og Vignir Stefánsson.


Sumarið hjá okkur í ÍBV er auðvitað gríðarlega annasamt og skemmtilegt.

TM mótið fór fram að venju í júnímánuði.   Mótið stækkar ár frá ári og sú ákvörðun ÍBV að breyta því og reka það áfram þrátt fyrir að mótið skilaði tapi fyrir félagið fyrstu árin eftir breytingar hefur snúist við og nú gengur mótið vel fyrir sig og skilar hagnaði til félagsins auk þess að vera frábært mót og ÍBV og Vestmannaeyjum til mikils sóma.

Shellmótið er hins vegar fyrir löngu búið að festa sig í sessi sem eitt  glæsilegasta knattspyrnu-og íþróttamót landsins.   Breytt fyrirkomulag þar og stytting mótsins um einn dag hefur skilað enn meiri vinsældum mótsins og ánægju en áður var og þó var vart á bætandi.  Mótið er auðvitað eitt það allra glæsilegasta á landinu og þótt víðar væri leitað.
      Vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að Pæjumóti TM og Shellmóti fyrir frábær og ómetanleg störf fyrir félagið.

Þjóðhátíðin er að sjálfsögðu okkar langmikilvægasta fjáröflun og á félagið allt mikið undir því að vel gangi þar.  Það er ekki hægt að segja það að Þjóðhátíðin 2011 hafi ekki gengið vel.  Engu að síður komu þar til nokkrir hnökrar varðandi farþegaflutninga með Herjólfi sem höfðu talsverð áhrif á afkomu hátíðarinnar.  Þjóðhátíðarnefndin leitaði hins vegar lausna og í samstarfi við Eimskip og Vegagerðina þá var fyrirkomulagi breytt og miðar nú seldir í gegnum ÍBV.  Auk þessa var ákveðið að bjóða uppá innigistingu fyrir gesti í íþróttahúsum okkar Eyjamanna.  Nokkur gagnrýni hlaust af þessu og get ég fullyrt að hún er með öllu ósanngjörn og virðist fyrst og fremst byggjast á algjörri vanþekkingu og skilningisleysi..  Það er t.d. nú að gerast að gestir sem vilja komast á fimmtudegi og föstudegi og fara á mánudegi og þriðjudegi eiga enn þennan kost þrátt fyrir að vikur séu frá því að miðar í Herjólf fóru í sölu.  Þetta var allt uppselt á tveimur sólarhringum áður og síðan var Herjólfur hálftómur í raun.  Varðandi gistingu þá er sú hugmynd ein sú besta sem fram hefur komið, bæði hvað varðar gesti og ÍBV.  Fréttaflutningurinn snérist hins vegar um það hvort leyfi lægi fyrir.  Þetta er óskiljanlegt.  Þjóðhátíðarnefnd hefur sýnt það í verki að henni er mjög vel treystandi til að halda góða Þjóðhátíð sem skilar viðunandi hagnaði fyrir félagið allt.  Þær lausnir sem nú hefur verið leitað sýna það enn og aftur að góðir menn leysa vandamálin.  Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil uppbygging hefur átt sér stað í Dalnum.  Sitt sýnist auðvitað hverjum en það kom tvennt til greina að byggja varanlega og vel, með tilheyrandi kostnaði eða að fjárfesta í gámum og reisa og taka síðan niður á hverju ári.  Fyrir lá að síðari kosturinn var fjárfesting á bilinu 20-30 milljónir.  Ekki var gert ráð fyrir salernisaðstöðu eða annarri þeirri aðstöðu s.s. vegna sölubúða, lagera ofl.  Þá liggur fyrir að slík fjárfesting væri ekki varanleg.  Ég fullyrði að af þeim sem best til þekkja til uppbyggingar á Þjóðhátíð þá var mikill meirihluti fyrir því að byggja varanlega.  Auðvitað kostar þetta en það mun til lengri tíma litið skila sér vel fyrir félagið og hefur t.d. þegar gert það í meiri sölu í búðunum.  Aðalstjórn bar allan kostnað af þessari uppbyggingu.  Best hefði verið að hægt hefði verið að greiða fjárfestinguna án skuldsetninga vegna fjármagnskostnaðar, en það var einfaldlega ekki hægt.  Rekstur félagsins þarf að ganga áfram nokkuð óskertur.  Því þurfti að taka talverð lán vegna uppbyggingarinnar sem greiðast á næstu 10 árum.  Á móti kom að aðalstjórn hafði orðið vel ágengt að greiða niður skuldir félagisins og þannig búið sig undir fjárfestinguna.  Nú sér fyrir endann á þessum framkvæmdum og er vonandi að vel gangi að greiða niður skuldir þannig að hægt verði að koma fjármagni til íþróttastarfsins sem er auðvitað markmið okkar allra.  Ennfremur má nefna það að ef gistingin slær í gegn þá getur hún skilað verulegum hagnaði fyrir félagið.  Þannig geta góða hugmyndir aukið hagnaðinn verulega ef vel tekst til.  Þjóðhátíðarnefnd á því miklar þakkir skildar fyrir mikinn dugnað og útsjónarsemi við rekstur Þjóðhátíðar.
 Þjóðhátíðin byggir á miklu sjálfboðastarfi Eyjamanna og það eru ýmsir sem leggja mjög mikið á sig svo að hátíðin gangi sem best.  Yfirleitt sömu menn og konur  ár eftir ár.  Ég vil því þakka öllum þeim sem hjálpa til við að gera Þjóðhátíðina jafn glæsilega og raun ber vitni fyrir þeirra ómetanlega starf.

Knattspyrnuvertíðin var glæsileg sl. sumar.  Báðir meistaraflokkarnir léku í efstu deild, Pepsi deild.  Bæði lið luku leik í þriðja sæti sem telja má frábæran árangur.  Kvennaliðið féll síðan úr leik í 8 liða úrslitum bikars gegn Afturelding í vítaspyrnukeppni en karlaliðið fór alla leið í undanúrslit bikarsins þar sem þeir máttu þola tap á útivelli gegn Þór Akureyri.  En árangurinn frábær sl. sumar og margir sem skemmtu sér vel á leikjum liðanna. Ráðin eru að berjast í því að ná endum saman og einsog fram kemur í skýrslu skoðunarmanna með ársreikningi þá er mjög mikilvægt að deildir séu reknar réttum megin við núllið. Góð samvinna er með ráðum og aðalstjórn og gullur gagnkvæmur skilningur á þessu mikilvæga markmiði enda unnið gott og mikið starf í ráðunum.





Þá voru sumarlok ÍBV haldin með hefðbundnum hætti og fjölmenntu félagar þar og skemmtu sér fram á nótt. Knattspyrnufólk ársins voru valin þau Rasmus Christiansen og Julie Nelson

Félagið á fjölmarga iðkendur í landsliðum og landsliðshópum.
 Landsliðsfólk 2011.
Knattspyrna:
Sóley Guðmundsdóttir
Birna Berg
Berglind Þorvaldsdóttir
Sigríður Lára Garðarsdóttir
Svava Tara Ólafsdóttir
Julie Nelson
Danka Podovac
Vesna Smiljkovic
Þórarinn Ingi Valdimarsson
Albert Sævarsson
Tryggvi Guðmundsson
Brynjar Gauti Guðjónsson
Guðmundur Þórarinsson
Eiður Aron Sigurbjörnsson
Tonny Mawejje
Abel Dhaira
Handboli:
Drífa Þorvaldsdóttir
Berglind Dúna Sigurðardóttir
Theodór Sigurbjörnsson
Vignir Stefánsson
Dagur Arnarsson

Gefum þeim öllum gott klapp.

 Fjárhagsleg staða félagsins hefur versnað nokkuð á milli ára. Félagið hefur fjárfest verulega fyrst og fremst vegna Þjóðhátíðarinnar.  Auðvitað er það þannig að skuldir þarf að greiða fyrst af öllu og höfum við fundið fyrir því í gegnum tíðina. Deildirnar komu misjafnlega út einsog sjá má á ársreikningum og skýrslum skoðunarmanna. Mikilvægt er að  afkoma deilda sé jákvæð ekki síst vegna þess að þá fara fjármunir aðalstjórnar ekki í að greiða skuldir heldur er þá frekar hægt að úthluta þeim fjármunum til deilda eins og tilgangurinn hefur ætið verið að láta fjármunina nýtast í íþróttastarfinu. Samningur aðalstjórnar og deilda um niðurfellingu skulda hefur gengið ágætlega eftir og mikilvægt að það gangi vel fyrir sig.

Knattspyrnudeildirnar þurfa nokkuð að bæta sig en ríkur vilji er þar innandyra að ná endum saman.
Nú standa yfir framkvæmdir við stúkubyggingu við Hásteinsvöll. Mikilvægt er einnig að þær áætlanir gangi vel fyrir sig og fjármagn skili sér hratt og vel en ekki er gert ráð fyrir því að félagið beri kostnað af þessari framkvæmd.
Rétt er að  þakka sérstaklega Hjálmari Helgasyni tækjaleigueiganda. Hann lánaði félaginu stóra skurðgröfu endurgjaldslaust. Spöruðust þar talsverðar fjárhæðir vegna jarðvinnu. Gefum honum gott klapp.

 Yngri flokka starfið hjá félaginu er mjög blómlegt. Við höfum lagt á það mikla áherslu að vera með mjög góða þjálfara og góða umgjörð.
Unglinaráð og starfsmenn félagsins eiga miklar þakkir skyldar fyrir allt sitt starf. Slikt starf kostar auðvitað mikið en ég held að allir séu sammála um að þeim fjármunum sé vel varið. Kostnaður vegna yngri flokka var tæpar 40 milljónir á sl. Ári og er þá skrifstofukostnaður ÍBV ekki reiknaður þar inní eða td. kostnaður við vallarumsjón.
ÍBV er í fararbroddi með rekstur á Akademíum og rekum við nú tvær slíkar, þe. Fyrir framhaldsskóla og grunnskóla. Þá hefur ÍBV fengið viðurkenningu frá Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands sem Fyrirmyndarfélag. Verður viðurkenningin veitt formlega á næstunni.
Að öðrum ólöstuðum á Árni Stefánsson án ef a mestan þátt í rekstri Akademíunnar sem og allri vinnu við að öðlast viðurkenningu sem Fyrirmyndafélag.  Árni er á förum frá félaginu og sjáum við mikið á eftir honum enda hefur hann unnið mikið og gott starf. Gefum honum gott klapp.

 Þá er rétt að þakka bæjaryfirvöldum fyrir mjög góða samvinnu á sl. Ári. Við kappkostum að eiga sem allra best samstarf við bæjaryfirvöld og finnum fyrir miklum skilningi og jákvæðni gagnvart félaginu. Það er okkur auðvitað miklvægt enda eigum við mikið undir velvilja bæjarins á mörgum sviðum Vil ég þakka bæjaryfirvöldum sérstaklega fyrir þeirra stuðning.

 ÍBV-íþróttafélag er sterkt félag sem bygir á sjálfboðaliðastarfseminni. Við stöndum þar sterkt að vígi og höfum enga ástæðu til annars en að horfa til framtíðar með bjartsýni.


Á síðasta ári var Aðalstjórn ÍBV-íþróttafélags skipuð eftirfarandi einstaklingum:
Jóhann Pétursson formaður
Páll Scheving Ingvarsson varaformaður
Þórunn Ingvarsdóttir gjaldkeri
Guðný Hrefna Einarsdóttir meðstjórnandi
Guðjón Gunnsteinsson meðstjórnandi

Varamenn:
Sigurbergur Ármannsson
Sigurður Smári Benónýsson

Við höfum öll átt mjög gott samstarf á liðnu ári og vil ég þakka stjórnarmönnum fyrir það.

Jóhann Pétursson
Formaður