Steingrímur var glæsilegur fulltrúi ÍBV innan vallar sem utan. Innan vallar fór hann hratt yfir um leið og prúðmennska og leikgleði einkenndu leik hans allan. Þau voru ekki mörg spjöldin sem fóru á loft þegar Steingrímur átti í hlut, styrkleiki hans lá annars staðar. Utan vallar einkenndi sama prúðmennskan og leikgleðin drenginn. Hann var ekki fyrir það að miklast af afrekum sínum eða hæfileikum þótt það hafi verið auðvelt og rík tilefni til.
ÍBV kveður í dag mikinn félaga. ÍBV er stolt og hreykið af því að hafa átt slíkan félaga sem Steingrímur var. Fyrirmynd í alla staði. Spjaldið sem ekki verður umflúið hefur farið á loft og skórnir settir á hilluna. ÍBV saknar góðs drengs og félaga sem alltof snemma yfirgefur leikvöllinn. En orðstýrinn lifir og minningin mun ylja mörgum í framtíðinni. Minning um hugprúðan og ljúfan dreng sem hvítklæddur geysist um Hásteinsvöllinn, glaður í bragði og hvers manns hugljúfi.
En mikill er missir fjölskyldu Steingríms. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur og við hjá ÍBV vottum þeim Jónu Dís, Kristjönu Maríu og Jóhönnu Rún okkar dýpstu samúð. Þá vottar ÍBV Geirrúnu móður hans, systkinum, tengdaforeldrum og öllum þeim sem nú missa mikið, innilega samúð. ÍBV biður góðan Guð að líta til ykkar allra og veit að hann mun örugglega passa uppá Steingrím Jóhannesson. Megi góð minning um fallinn félaga lifa um ókomna tíð.
Jóhann Pétursson, formaður ÍBV Íþróttafélags