Kveðja frá ÍBV-Íþróttafélagi

12.mar.2012  07:41

Steingrímur Jóhannesson jarðsunginn í dag

Steingrímur Jóhannesson var fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum.  Snemma hneigðist hugur hans til íþrótta enda voru þær honum í blóð bornar.  Um leið og Steingrímur hafði aldur til hóf hann að leika knattspyrnu og síðar handknattleik með Íþróttafélaginu Þór.   Þá stundaði Steingrímur einnig frjálsar íþróttir með Ungmennafélaginu Óðni.  Fljótlega var ljóst að ómældir hæfileikar og fjölhæfni bjuggu í drengnum.  Knattspyrnan varð fyrir valinu og þar bar Steingrímur af.  Hann hóf að leika með meistaraflokki ÍBV á unglingsaldri og lék með félaginu óslitið í rúman áratug.  Árangurinn lét ekki á sér standa.  Árið 1997 varð Steingrímur Íslandsmeistari með ÍBV og Íslands- og bikarmeistari ári síðar.  Varð hann markakóngur efstu deildar árin 1998 og 1999.  Þá varð Steingrímur bikarmeistari með Fylki árið 2002.  Síðar lék Steingrímur með liði Selfoss og þá lá leiðin aftur til Vestmannaeyja þar sem Steingrímur lék með ÍBV og KFS.  Steingrímur lék samtals 221 leiki í efstu deild og skoraði í þeim leikjum 81 mark.  Þá lék hann einn A landsleik og þrjá leiki fyrir U-21-landsliðið.

 

Steingrímur var glæsilegur fulltrúi ÍBV innan vallar sem utan.  Innan vallar fór hann hratt yfir um leið og  prúðmennska og leikgleði einkenndu leik hans allan.  Þau voru ekki mörg spjöldin sem fóru á loft þegar Steingrímur átti í hlut, styrkleiki hans lá annars staðar.  Utan vallar einkenndi sama prúðmennskan og leikgleðin drenginn.  Hann var ekki fyrir það að miklast af afrekum sínum eða hæfileikum þótt það hafi verið auðvelt og rík tilefni til.  
ÍBV kveður í dag mikinn félaga.  ÍBV er stolt og hreykið af því að hafa átt slíkan félaga sem Steingrímur var.  Fyrirmynd í alla staði.  Spjaldið sem ekki verður umflúið hefur farið á loft og skórnir settir á hilluna.  ÍBV saknar góðs drengs og félaga sem alltof snemma yfirgefur leikvöllinn.  En orðstýrinn lifir og minningin mun ylja mörgum í framtíðinni.  Minning um hugprúðan og ljúfan dreng sem hvítklæddur geysist um Hásteinsvöllinn, glaður í bragði og hvers manns hugljúfi.
  En mikill er missir fjölskyldu Steingríms.  Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur og við hjá ÍBV vottum þeim  Jónu Dís, Kristjönu Maríu og Jóhönnu Rún okkar dýpstu samúð.  Þá vottar ÍBV Geirrúnu móður hans, systkinum, tengdaforeldrum og öllum þeim sem nú missa mikið, innilega samúð.  ÍBV biður góðan Guð að líta til ykkar allra og veit að hann mun örugglega passa uppá Steingrím Jóhannesson.  Megi góð minning um fallinn félaga lifa um ókomna tíð.

Jóhann Pétursson, formaður ÍBV Íþróttafélags