Svava Tara og Sísí Lára valdar í lokahóp U-19 í knattspyrnu.

17.feb.2012  13:04
Þær Svava Tara Ólafsdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir voru báðar valdar í lokahóp U-19 ára landsliðsins í knattspyrnu nú í morgun.  Svava Tara og Sísí Lára fara með liðinu til Algarve nú í byrjun mars í viku til að taka þátt í æfingamóti þar sem leikið verður gegn Noregi, Englandi og Skotlandi ásamt því að æft verður við toppaðstæður.  Þessi ferð er liður í undirbúningi liðsins fyrir milliriðil Evrópumóts landsliða sem fram fer í apríl.  Þetta er gríðarlega góður árangur þar sem þær eru báðar á yngra ári.  Þess má til gamans geta að um síðustu helgi fór fram Cooper hlaupapróf hjá liðinu og gerði Svava Tara sér lítið fyrir og sigraði það.  Sóley Guðmundsdóttir æfði með liðinu eftir langa fjarveru en þjálfurum liðsins þótti ekki rétt að velja Sóleyju að svo stöddu þar sem hún er ekki í þeirri leikæfingu sem svona verkefni krefjast.
Þá var Bergrún Linda Björgvinsdóttir valin til æfinga með U-16 ára landsliðinu sem undirbýr sig af kappi fyrir Norðurlandamótið í sumar.  Bergrún er mjög efnilegur leikmaður sem lét heldur betur af sér kveða í 2.flokki í sumar og var þar markahæst þrátt fyrir að vera á yngra ári í 3.flokki. 
 
ÍBV óskar þessum efnilegu stúlkum innilega til hamingju með þennan árangur.