Árið 2011 var viðburðaríkt hjá ÍBV íþróttafélagi bæði innan vallar og utan.
Árið hófst að vanda á þrettándagleðinni sem er orðinn jafn fastur liður í dagatali bæjarbúa og jólin. Það er gaman að sjá að brottfluttir Eyjamenn, konur og börn – og jafnvel fólk með lítil tengsl til Eyja – er farið að leggja leið sína í auknum mæli á þessum árstíma og taka þátt í gleðinni. Víst er að ef hægt verður að sigla í Landeyjahöfn á þessum tíma þá mun fjölga verulega í bænum á meðan á þessu fjöri stendur. Einnig hafa verslanir í bænum og fyrirtæki verið dugleg við að koma til liðs við hátíðna á ýmsan hátt með tilboðum og öðrum glaðningi sem kenndur er við álfra, tröll og aðrar fornynjur er sjást á malarvellinum þessa kvöldstund í janúarbyrjun ár hvert. Fyrsta vetrarhátíðin á Íslandi er því orðin að veruleika.
Handboltalið félagsins voru í fullu fjöri og spiluðu stúlkurnar í N1 deildinni og enduðu í 6 sæti með 17.stig. Góður árangur hjá meistaraflokki kvenna. Strákarnir ætluðu sér upp en það gekk ekki eftir og er stefnan áfram sett á sæti í efstu deild í ár. Þeir enduðu í 4.sæti með 23 stig.
Fótboltasumarið var sterkt bæði í karla og kvennaboltanum. Stelpurnar á ný í efstu deild og stóðu sig frábærlega. Náðu meðal annars að verma toppsætið þó liðið hafi endað aðeins neðar. Fóru svo í 8-liða úrslit en töpuðu, frekar óvænt heima fyrir Aftureldingu eftir langan og strangan leik. Stelpurnar höfðu byrjað vertíðina á því að vinna B-deildina í Lengjubikarnum. Þarna er að koma fram lið sem að gaman verður að fylgjast með á næstu árum. Strákarnir hófu leik í Lengjudeildarbikarnum eins og stelpurnar og enduðu þar í 3 sæti í sínum riðli. EN þetta var bara góð upphitun fyrir bráðskemmtilegt sumar þar sem liðinu gekk lengstum vel. En gaf þó eftir á lokasprettinum bæði í deild og bikar. Þeir töpuðu í undanúrslitum í Valitor bikarnum, gegn Þór á Akureyri það var sárt, og enduðu í 3ja í Pepsi-deildinni eftir að hafa verið í einu af 3 efst sætunum nánast allt mótið. Liðið datt úr leik í Evrópukeppninni gegn Saint Patrick‘S frá Írlandi í fyrstu umferð, eftir góðan 1-0 sigur á heima(úti)velli töpuðum við 0-2 úti í Dyflinni.
Pæjumót TM gekk eins og í sögu í byrjun júní. Það er kominn ákveðin festa í þetta mót, sem vex og dafnar með hverju árinu sem líður. Það er gaman að sjá hvernig þetta mót hefur lifnað við eftir að menn voru farnir að hafa af áhyggjur af hver framtíð þess yrði.
Shellmótið var á sínum stað í lok júní eins og það hefur verið, frá því að nánast elstu menn muna, og gekk vel fyrir sig, manni liggur við að segja að vanda. Ásókn í að taka þátt í mótnu er enn mikil og virðist síst hafa dregið úr henni með árunum. Mótið rennur áfram eins og vel smurð skíði ár eftir ár og það á ekki síst sinn þátt í að liðin sækja í að koma aftur og aftur þau vita að hverju þau ganga.
Í lok júlí var Þjóðhátíðin sett. Ekki voru veðurguðirnir jafn góðir við okkur núna og þeir voru árið 2010 og stafar það kannski af því að þjóðhátíðarnefnd samdi bara við einn af Veðurguðunum (Ingó) en árið áður fengu þeir allir samning. Þrátt fyrir veðrið gekk Þjóðhátíðin vel og virtust 98% gesta skemmta sér vel og létu veðrið ekki á sig fá. Nýtt Brekkusvið sló algjörlega í gegn, bæði hjá listafólki sem og hjá þeim sem hlýddu á.
Auk ofantalina viðburða stóð ÍBV-íþróttafélag fyrir ýmsum smærri viðburðum líkt og blakmóti öldunga sem haldið var í maí. Þá sóttu um 1500 manns Eyjarnar heim og var það vel heppnað mót. Einnig stendur félagið fyrir tveimur fjölmennum handboltamótum í yngri flokkunum. Þá er bryggjudagurinn í júlí ár hvert.
Af þessari upptalningu má sjá að starfið er blómlegt í kringum félagið. Allt þetta starf er borið uppi af dugmiklum sjálfboðaliðum sem gera sér grein fyrir mikilvægi félagsins í okkar ágæta bæjarfélagi.
Að endingu er rétt að minnast aðeins á áhorfendastúku sem senn rís við Hásteinsvöll. Stúkan mun taka tæplega 500 manns í sæti og nýtist rýmið undir stúkunni. Til framtíðar litið munu verða þrír búningsklefar þar auk þess sem stúkan verður stækkanleg uppí 800 manna. Áætlað er að hluti af þessu verkefni verði unnin í sjálfboðavinnu af félagsmönnum og er rétt að geta þess jarðvegsvinnan sem nú er unnin, er að mestu leiti unnin þannig.