Við sem stöndum að Íþróttaakademíunni teljum að hún gangi mjög vel, auðvitað voru nokkrir hlutir sem við þurftum að laga frá því sem við fórum upprunalega af stað með. Þeir voru samt ótrúlega fáir og núna eftir tvær annir finnst okkur að Akademían orðin nokkurn veginn eins og við viljum að hún verði. Við vorum bjartsýnir í upphafi og renndum svolítið blint í sjóinn með hvernig viðtökur nemenda og foreldra myndu verða en þær hafa farið fram úr okkar björtustu vonum.
Við hjá ÍBV erum í mjög góðu samstarfi við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og saman erum við að bjóða upp á vandaða íþróttaáfanga fyrir metnaðarfulla nemendur sem hafa mikinn áhuga á íþróttum og hafa metnað til þess að ná langt í sinni íþróttagrein. Með fjölbreyttum og vel skipulögðum æfingum og bóklegum kennslustundum vinnum við markvisst að því að gera nemendum kleift að bæta sig verulega bæði líkamlega og andlega. Æfingarnar skiptast í tækniæfingar í knattspyrnu og handknattleik og styrktarþjálfun sem er nauðsynleg til að ná hámarksárangri í sinni íþrótt. Með því að mæla og meta nemendur í upphafi náms, þá er hægt að aðstoða þá við að setja sér persónuleg markmið og hjálpa þeim síðan að reyna að ná þessum markmiðum. Tækniæfingarnar eru kl. 6:30 á morgnana, tvisvar í viku og að þeim loknum fara krakkarnir í sturtu og fá síðan vel útilátinn morgunmat í Týsheimilinu áður en þau mæta í skólann kl. 8.
Bóklega kennslan felur í sér nauðsynlegan fróðleik fyrir þá sem ætla að skara fram úr. Þar er m.a. farið í næringarfræði, íþróttasálfræði og þjálffræði, þar sem fjallað verður um starfsemi líkamans og þá hluti sem hafa áhrif á afreksgetu í íþróttum. Leitast er við að auka sjálfstraust og bæta sjálfsmynd nemenda til þess að bæta árangur þeirra. Nemendur læra að vera hluti af liðsheild, þar sem þeir þurfa bæði að gefa af sér og geta unnið vel með öðrum. Þeir þurfa að tileinka sér þann aga og lífsstíl sem þarf til að ná hámarksárangri í íþróttum, læra að tileinka sér hugsunarhátt afreksmanna, hugsa vel um eigin líkama, borða hollan og góðan mat, temja sér heilbrigt líferni og vera reglusamir í alla staði. Með þessu teljum við okkur vera að bjóða okkar efnilegustu íþróttakrökkum upp á að æfa sína íþróttagrein við toppaðstæður og þau eiga ekki að þurfa að leita upp á land eftir slíku. Við viljum halda sem lengst í okkar krakka og þetta er mjög góð leið til þess.
Nemendur skrifa undir samning um strangar mætinga- og agareglur, enda er reglusemi og dugnaður undirstaða þess að ná langt í íþróttum. Nemendur þurfa að skuldbinda sig til að standa sig vel í skólanum, þeir verða að mæta vel og alltaf á réttum tíma og vera með eðlilega námsframvindu, og ljúka a.m.k. 80% af þeim einingum sem þau eru í á önninni.
Aðsóknin að Akademíunni er núna svipuð því sem við bjuggumst við í upphafi. Á fyrstu önn, vorönn 2011, vorum við með 36 nemendur, töluvert fleiri en við bjuggumst við, en síðan fækkaði þeim þegar leið á önnina og það voru 30 nemandur sem luku henni. Á haustönn 2011 voru 20 nemendur sem allir luku námi. Þar erum við komin með hörkuduglega krakka sem hafa mikinn metnað og eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná árangri. Helsta ástæðan fyrir því að það eru færri nú en í upphafi er sú að það voru ekki allir nemendur sem voru með á fyrstu önn tilbúnir að leggja svona mikið á sig og voru ekki tilbúnir að gangast undir þær ströngu reglur sem við höfum í sambandi við algjöra reglusemi og mætingu. Á vorönn 2012 verða rúmlega 20 nemendur sem skiptast nokkuð jafnt í stráka og stelpur og einnig eru nokkurn veginn jafn margir í knattspyrnu og handknattleik. Við erum strax búin að fá krakka ofan af landi sem komu til Vestmannaeyja af því að þeim leist vel á FÍV og Akademíuna og er vonandi að enn fleiri krakkar komi á næstu önnum.
Núna erum við að færa Akademíuna niður í Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem við munum bjóða nemendum í 9. og 10. bekk upp á svipaða hluti og við erum með í framhaldsskólanum. Bæjarstjórninni leist vel á það sem við erum að gera og höfðu samband við okkur og vildu að við myndum setja upp Akademíu í grunnskólanum sem yrði eins konar undirbúningur fyrir framhaldsskólann. Við erum í samstarfi við GRV búnir að gera það og verður náið samstarf milli kennaranna í Akademíunni og kennara krakkanna sem verða í Akademíunni og þau þurfa að standa undir þeim námskröfum sem GRV er með til að mega vera með. Með þessu erum við að höfða til nemenda um að þeir eigi að standa sig vel bæði í sínu námi og íþróttum. Þau munu skrifa undir lífsstílssamning þar sem þau lofa að vera reglusöm, mæta vel bæði í skólann og Akademíuna og standa sig vel í skólanum.
Við leggjum mikinn metnað í Íþróttaakademíuna og við erum bjartsýnir á að með henni séum við að leggja grunn að enn betra íþróttastarfi hér í Vestmannaeyjum. Við viljum hvetja alla nemendur sem hafa áhuga á að vera með í Akademíunni til að hafa strax samband við okkur, það verður hægt að bæta inn nemendum sem hafa áhuga á að vera með núna á vorönn 2012 þó að önnin sé byrjuð.
Árni Stefánsson / mynd eyjafrettir.is
Viðtalið birtist í Þrettándablaðinu sem borið verður í öll hús annað kvöld.
Nánari upplýsingar um Akademíuna má nálgast hér.