Yngri flokkar - Gríðarlega öflugt uppeldisstarf unnið hjá ÍBV

23.des.2011  13:12

-Úttekt KSÍ á starfi ÍBV-íþróttafélags

Á dögunum komu í heimsókn til okkar þeir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ og Dagur Sveinn Dagbjartsson starfsmaður fræðsludeildar. Tilgangur ferðarinnar var að taka út knattspyrnuhlutann í starfi félagsins. Óhætt er að segja að ÍBV hafi fengið góða einkunn á því mikla faglega starfi sem unnið er innan félagsins. Hægt er að sjá niðurstöðu úttektarinnar með því að smella á ,,meira".

Uppeldisáætlunin:

 

Uppeldisáætlun ÍBV var upprunalega gerð árið 2002 og var því komin til ára sinna.    ÍBV hefur verið í stefnumótunarvinnu á undanförnum mánuðum og verið að vinna þar í gerð nýrrar stefnu sem er langt á veg komin og er vönduð og ítarleg.  Þeirri uppeldisáætlun verður skilað inn með næstu leyfisumsókn ÍBV.  Uppeldisáætlunin verður vel aðgengileg á heimasíðu ÍBV og endurskoðuð reglulega í framtíðinni.  Jafnframt verður tilkynning send á foreldra eftir endurskoðun uppeldisáætlunarinnar svo þeir séu vel upplýstir.

 

Hin nýja uppeldisáætlun ÍBV mun innihalda leiðbeiningar um líkamlegt, andlegt, félagslegt og knattspyrnulegt uppeldi innan félagsins.

ÍBV á meistaraflokkslið í fremstu röð í Pepsi-deild karla og kvenna og ungir og uppaldir leikmenn fá  þar reglulega tækifæri til að leika með meistaraflokkunum.  Starf ÍBV er öflugt og þar fer fram gott knattspyrnulegt uppeldi sem hefur skilað sér í mörgum landsliðsmönnum og landsliðskonum í gegnum tíðina og mjög öflugum meistaraflokksliðum.  Gríðarlega öflugt uppeldsstarf er því unnið í félaginu sem hefur gengið afbragðsvel í gegnum tíðina þrátt fyrir að Vestmannaeyjar sé tiltölulega fámennt bæjarfélag.   

 

Það er von félagsins að halda áfram sínu öfluga starf og fyrirhugað er að styrkja enn frekar yfirþjálfarastöðuna innan félagsins sem er mikilvægt.  Það var lærdómsríkt fyrir okkur að fá að kynnast starfsemi og skipulagi ÍBV og sjá aðstöðu félagsins og þann anda sem ríkti innan félagsins. 

 

Við óskum ÍBV góðs gengis við að leggja lokahönd á uppeldisáætlunina sem verður lokið fyrir næsta leyfisferli.  Við þökkum hlýjar móttökur, góð viðbrögð og gagnlegan fund.  Við óskum ÍBV góðs gengis í að halda áfram sínu magnaða uppeldisstarfi.

 

Fyrir hönd KSÍ,

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri

Dagur Sveinn Dagbjartsson, fræðsludeild