Mikið við að vera hjá ÍBV um helgina

28.sep.2011  18:33

-Tryggvi Már Sæmundsson skrifar

Það verður mikið við að vera um helgina hjá okkar ástkæra félagi. Á laugardagsmorgun verður lokahóf yngri flokkana í Íþróttahúsinu klukkan 11. Mikið fjör fyrir krakkana þar sem veitt verða verðlaun og grillað verður ofaní mannskapinn. Klukkan 12.00 sama dag verður flautað til leiks ÍBV og Gróttu í N1 deild kvenna. Þar verður spennandi að sjá hvernig stelpurnar okkar koma til leiks með nokkuð breytt lið síðan í fyrra  Því næst fara stuðningsmenn ÍBV niðrá Hásteinsvöll þar sem meistaraflokkur karla tekur á móti Grindavík í síðasta leik sumarsins í Pepsí deild karla.
Mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Okkar menn að berjast við að tryggja Evrópusæti á næstu leiktíð á meðan gestirnir eru að berjast fyrir tilverurétti sínum í efstu deild. Leikurinn hefst klukkan 14.00

Að þessum leik loknum fara menn og konur að undirbúa sig fyrir hátíðarhöld sem fram fara uppí Höll um kvöldið. Sumarlok ÍBV íþróttafélags hefjast með borðhaldi klukkan 20.00. Þar eru allir félagsmenn boðnir velkomnir á frábæra skemmtun þar sem sumarið verður gert upp.

Á sunnudaginn verður svo punkturinn settur aftan við viðburðaríka helgi þegar að meistaraflokkur karla í handknattleik hefur formlega sína vertíð er þeir taka á móti ÍR klukkan 13.00 í Íþróttamiðstöðinni. Strákarnir eru harðákveðnir að fara beint uppí N1 deildina og verður gaman að fylgjast með þeim í vetur.

Af þessari upptalningu má sjá að það verður nóg um að vera um helgina hjá ÍBV og vonumst við til að sjá sem flesta bæjarbúa á öllum þessum viðburðum.

Áfram ÍBV, alltaf, allstaðar.

Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV.