Fréttir birta þarfa og góða úttekt á æfingagjöldum hjá félögum sem eiga lið í Pepsí-deildinni. Það eru þó nokkrir punktar sem að vantar inní greinina hjá Frétta-mönnum. Fyrir það fyrsta er ekki minnst á að ÍBV-íþróttafélag greiðir allan ferðakostnað yngri flokka í Íslandsmót (reyndar greiðir aðalstjórn ferðakostnað allra flokka félagsins í Íslandsmót). Á þetta er minnst í úttektinni hjá öðrum félögum. Hjá Fram (bara í knattspyrnu) og hjá Grindavík (hjá elstu flokkunum). Félögum sem búa við margfalt minni ferðakostnað en við Eyjamenn erum að glíma við.
Vont að þetta hafi gleymst hjá Fréttum sér í lagi þar sem ég var búinn að fara yfir þetta með blaðamanni. Framlag aðalstjórnar til ferðakostnaðar yngri flokka sem af er þessu ári er rétt um 8 milljónir og þá er ótalin sá sparnaður sem felst kaupum á nýrri rútu sem félagið fjárfesti í á árinu.
18 milljóna niðurgreisla Grindavíkurbæjar.
Úttekt Frétta ber fyrirsögnina „ Lægstu æfingagjöldin í Grindavík „ Þá skiptir miklu hvernig litið er á málið. Hlutirnir verða nefnilega ekkert ódýrari þó aðrir borgi þá. Í úttektina vantar að greina frá framlagi Grindavíkurbæjar. Grindavíkurbær sem er mun fámennara bæjarfélag en Vestmannaeyjar setur 18 milljónir á ári til barna og unglingastarfs UMFG. Samt rukkar UMFG iðkendur sína um 20.000 krónur í æfingagjöld á ári. Þetta er mikilvægt í ljósi þess að fyrirsögnin er að Grindavík sé með lægstu æfingagjöldin. Það er hæpin fullyrðing og ámælisvert að nefna ekki slíka fjárhæð þegar greinin er rituð.
Ef ÍBV íþróttafélag fengi viðlíka greiðslu frá bæjaryfirvöldum hér, þá fullyrði ég að félagið myndi ekki innheimta nein æfingagjöld af heimilum í Vestmannaeyjum, svo einfalt er það. Ekki er um að ræða neina niðurgreiðslu á æfingagjöldum hjá Vestmannaeyjabæ líkt og er hjá flestum sveitafélögum sem eru í þessari könnun.
Það er ljóst á þessari úttekt að það eru forréttindi að eiga barn í íþróttum hjá ÍBV íþróttafélagi. Stjórn félagsins hefur lagt ríka áherslu á að hafa æfingagjöld eins lág og nokkur kostur er, en þó lagt áherslu á að metnaður sé í faglega þættinum. Við munum áfram kappkosta að vera með lægstu æfingagjöld landsins sem við teljum félagið bjóða þegar að við tökum frá niðurgreiðslur Grindavíkurbæjar.
Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags